Fjóla ráðin sveitarstjóri

Fjóla ásamt sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps, Fjóla er þriðja frá …
Fjóla ásamt sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps, Fjóla er þriðja frá vinstri. Ljósmynd/Aðsend

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir hefur verið ráðin nýr sveitarstjóri Grímsness- og Grafningshrepps. Ráðningin var samþykkt samhljóða á sveitarstjórnarfundi nú í morgun en ráðningin stendur út yfirstandandi kjörtímabil og til ársins 2026.

Fjóla tekur við starfinu af Iðu Marsibil Jónsdóttur sem nýverið lét af störfum.

Fjóla er 52 ára gömul, fædd árið 1972, og er með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands, BSc í viðskiptafræði, og vottaður fjármálaráðgjafi ásamt því að hafa lokið kennsluréttindum á meistarastigi, að því er fram kemur í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Hefur komið víða við

Iða Marsibil Jónsdóttir lét nýverið af störfum sem sveitarstjóri Grímsness- …
Iða Marsibil Jónsdóttir lét nýverið af störfum sem sveitarstjóri Grímsness- og Grafningshrepps Ljósmynd/Aðsend

Fjóla á fjölbreyttan starfsferil að baki, hún gegndi meðal annars stöðu bæjarstjóra í Sveitarfélaginu Árborg á árunum 2022-2024. Fjóla hefur einnig starfað sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Landsbankans á Selfossi og á velferðarsviði Árborgar þar sem hún bar ábyrgð á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

Fjóla hefur einnig kennt námskeiðið Velferð í fjármálum við Fræðslunet Suðurlands auk þess að kenna fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Fjóla hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina og hefur tekið virkan þátt í margvíslegri sjálfboðavinnu.

Mikil tækifæri

Í tilkynningu kemur fram að sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps fagni ráðningu Fjólu og hlakki til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem fram undan eru en Fjóla hefur störf þann 1. febrúar næstkomandi.

„Ég er mjög spennt að hefja störf sem sveitarstjóri Grímsness- og Grafningshrepps og hlakka til að vinna með sveitarstjórn, íbúum, starfsfólki og fasteignaeigendum sveitarfélagsins að áframhaldandi uppbyggingu og þróun sveitarfélagsins. Það er mér mikill heiður að taka við starfi sveitarstjóra en ég tel mikil tækifæri felast í samfélaginu og sé spennandi tíma framundan,“ er haft eftir Fjólu í tilkynningu sveitarstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert