Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, spyr hvernig það megi vera að Ríkisendurskoðun hafi ekki flaggað því fyrr að Flokkur fólksins væri að fá styrkveitingu frá ríkinu í trássi við lög.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær þá er flokkurinn ekki skráður á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins, sem er lögbundið skilyrði fyrir því að hljóta opinbert framlag. Flokkurinn er skráður sem félagasamtök.
„Hvernig má það vera að ríkisendurskoðun hafi ekki flaggað þessu? Ég veit að RE bendir flokkum á ef fjárstuðningur sem tengist sömu kennitölu fer yfir leyfilega viðmiðunarfjárhæð, til dæmis ef viðkomandi hefur stutt flokkinn og svo til dæmis söfnun aðildarfélags á staðnum,“ skrifar Helga Vala á facebook.
Morgunblaðið greindi frá því í dag Flokkur fólksins myndi ekki fá styrk úr ríkissjóði í ár en frá stofnun hefur hann fengið 240 milljónir króna þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði fyrir slíkum greiðslum.
Helga spyr hvort að það sé ekki „ögn sérstakt“ að Ríkisendurskoðun virðist ekki hafa tekið eftir félagaformi Flokks fólksins. Ríkisendurskoðun fer yfir ársreikninga stjórnmálaflokka á hverju ári.
„Ég er ekki að skjóta Flokk fólksins heldur að benda á að enginn gerði athugasemd við þetta fyrr en, að því er virðist, Mogginn fór af stað. Þá allt í einu er fjárstuðningur óheimill. Hvar var embættismaður ríkisins í öll þessi ár?“ skrifar Helga.