Líneik Anna Sævarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefur verið ráðin stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu Fjarðabyggðar.
Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Fjarðabyggðar.
Líneik var fyrst kjörin á alþingi fyrir Framsóknarflokkinn í alþingiskosningum árið 2013. Hún féll af þingi í kosningunum árið 2016 en var kjörin aftur inn á þing ári síðar. Fyrir síðustu þingkosningar ákvað hún að gefa ekki aftur kost á sér.
„Líneik Anna var áður alþingismaður og er heldur ekki ókunn skólamálum í Fjarðabyggð en hún starfaði áður sem kennari og síðar skólastjóri við Grunnskólann á Fáskrúðsfirði, framkvæmdarstjóri Fræðslunets Austurlands og verkefnastjóri hjá Austurbrú. Einnig sat hún í sveitarstjórn Búðarhrepps og Austurbyggðar, ásamt ýmsum nefndum og ráðum sveitarfélagsins,“ segir í tilkynningunni.
Staðan var auglýst laus til umsóknar í lok nóvember og umsóknarfrestur rann út 23. desember.
Tvær umsóknir bárust og Líneik var ráðin. Fram kemur að hún hefji störf í vor.