Alls voru 35 mál bókuð í kerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Gista tveir í fangaklefa.
Lögreglu barst tilkynning um eld í gámi í hverfi 108. Í dagbók lögreglu segir að skemmdirnar séu minniháttar. Ekki er vitað hver kveikti eldinn.
Einn var handtekinn í miðborginni vegna gruns um ólöglega dvöl í landinu. Er málið nú til rannsóknar.
Þá bárust tilkynningar um þjófnað úr verslun í hverfi 110, 108, og tvo þjófnaði úr verslun í Hafnarfirði. Málin voru öll afgreidd á vettvangi.
Þá hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum, m.a. vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Einn varð valdur að umferðaróhappi. Þá var einn ökumaður stöðvaður á 124 km/klst hraða í götu þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.