Stórfelld kannabisrækt í Mosfellsbæ

Tæplega 9 kg af kannabisefnum voru haldlögð af lögreglunni.
Tæplega 9 kg af kannabisefnum voru haldlögð af lögreglunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir stórfellda kannabisræktun í Mosfellsbæ. Ræktunin var stöðvuð í júní árið 2021.

Mennirnir eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum tæplega 7,9 kg af maríhúana og tæplega eitt kíló af kannabislaufum, auk 47 kannabisplanta. Þá eru þeir sakaðir um að hafa um nokkurt skeið fram að handtöku staðið í ræktuninni, en samhliða handtöku þeirra var talsvert magn af ræktunarbúnaði gert upptækt.

Meðal þess sem lögreglan lagði hald á og gerð er krafa um upptöku á eru stórir led lampar, vatnsdælur, minni gróðurlampar, loftsíur, rakatæki, viftur, þurrkgrindur, loftblásarar og ýmislegt fleira.

Aðeins er krafist upptöku á 50 þúsund krónum sem fundust við leit í bifreið eins mannsins.

Aðalmeðferð málsins fer fram í næsta mánuði við Héraðsdóm Reykjavíkur.













mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert