Um 15,5% íbúða seldust yfir ásettu verði í nóvember og er kaupþrýstingurinn enn mikill á fasteignamarkaði.
Virkni markaðarins hefur þó farið minnkandi en tæplega 900 þinglýstir samningar voru gerðir í nóvember, samanborið við 950 samninga í október og í kringum þúsund mánuðina tvo þar á undan.
Þetta kemur fram í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Yfir 3.400 nýjar íbúðir voru teknar í notkun í fyrra sem eru tæplega 400 fleiri en spáð var í talningu HMS á íbúðum í byggingu. Mismunurinn er vegna hraðari framvindu fjölda íbúða á seinni byggingarstigum en HMS gerði ráð fyrir.
Alls voru 3.426 nýjar íbúðir gerðar fullbúnar á árinu 2024. Langflestar þeirra eða 2.223 talsins á höfuðborgarsvæðinu. Næstum tvær af hverjum þremur íbúðum utan höfuðborgarsvæðis sem gerðar voru fullbúnar í fyrra eru í landshlutunum Suðurland og Suðurnes.
Jafnframt var hlutfallslega mesta uppbygging íbúða í þeim landshlutum í fyrra eða í kringum 3% af heildarfjölda fullbúinna íbúða í hvorum landshluta fyrir sig.