Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, staðfestir að hún hafi átt í samtölum við flokkssystkin sín til þess að kanna grundvöllinn til framboðs.
„Ég útiloka ekkert í þeim efnum. Ég er eins og fleiri að máta mig við mína stuðningsmenn og fólk í flokknum. Ég hef þungar áhyggjur af stöðu flokksins og ef það er eftirspurn eftir því að ég taki þátt í því verkefni sem blasir við okkur, þá mun ég ekki láta mitt eftir liggja,“ segir Diljá.
„En ég þarf að vera meira í símanum til þess að meta það betur.“
Þetta kemur fram í þætti Dagmála, sem birtur er á vefnum í dag, opinn öllum áskrifendum.
Þar ræða þær Diljá og Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, um stjórnmálaástandið vítt og breitt, jafnt í landsmálum, borgarmálum og á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Landsfundur flokksins verður haldinn í lok febrúar og þar verður nýr formaður hans kjörinn.
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu.