Foreldrar stefna kennurum: „Þetta er neyðaraðgerð“

Um er að ræða foreldra barna í fjórum leikskólum.
Um er að ræða foreldra barna í fjórum leikskólum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópur foreldra leikskólabarna hefur stefnt Kennarasambandi Íslands, fyrir hönd barna sinna, vegna verkfallsaðgerða kennara, sem foreldrarnir telja ólöglegar.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku og fer aðalmeðferð fram um miðja næstu viku.

Þetta staðfestir Einar Örn Hannesson, foreldri í hópnum, í samtali við mbl.is.

„Þetta er neyðaraðgerð sem við erum að fara í, fyrir hönd barna okkar. Við höfum reynt að leita allra annarra leiða til að benda á þetta og höfum talað fyrir daufum eyrum, bæði hjá Kennarasambandinu og SÍS. Þetta var því örþrifaráð,“ segir Einar.

Foreldarnir stofnuðu félag sem hefur stefnt Kennarasambandinu til að fá úr því skorið hvort fyrirkomulag verkfallsaðgerðanna sé löglegt.

Málið fær flýtimeðferð fyrir dómstólum og binda foreldrar því vonir við að niðurstaða í málinu liggi fyrir nokkrum dögum eftir aðalmeðferð.

Telja að börnum hafi verið mismunað

Um er að ræða hóp foreldra sem eiga börn á þeim fjórum leikskólum þar sem farið var í ótímabundnar verkfallsaðgerðir á síðasta ári; leikskólunum Drafnarsteini í Reykjavík, Holti í Reykjanesbæ, Ársölum á Sauðárkróki og leikskóla Seltjarnarness

Alls var farið í verkföll í níu leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum á síðasta ári, en aðeins var um ótímabundnar aðgerðir í leikskólum. Á hinum skólastigunum var um tímabundnar aðgerðir að ræða.

Verkföllin stóðu í fimm vikur, eða þar til þeim var frestað vegna samkomulags um friðarskyldu sem náðist á milli samninganefnda kennara, ríkis og sveitarfélaga í lok nóvember.

Telja foreldrarnir að börnum þeirra hafi verið mismunað vegna þess að aðgerðirnar bitnuðu aðeins á litlum hópi barna um óákveðinn tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert