Hafa fengið ábendingar um meinta barnaníðinga

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ofbeldi …
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ofbeldi aðeins leiða af sér meira ofbeldi. Samsett mynd

Lögreglan hefur fengið ábendingar og tilkynningar um meinta barnaníðinga eftir að greint var frá því í fréttum að hópur ungmenna hefði lagt gildrur fyrir menn með tálbeituaðferð og síðan gengið í skrokk á þeim. Um er að ræða menn sem reyndu að setja sig í samband við börn í gegnum samfélagsmiðla.

Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Mynd­bönd af bar­smíðunum hafa gengið manna á milli á sam­fé­lags­miðlum upp á síðkastið. Nú­tím­inn greindi fyrst frá mál­inu í síðustu viku. 

Ekki endilega um meint brot að ræða

Ábendingarnar snúa þó ekki endilega að meintum brotum, að sögn Ævars.

„Það er meira verið að benda á menn sem mögulega barnaníðinga eða menn sem talið er að hafi verið að setja sig í samband við börn.“

Hann getur ekkert sagt til um það hvort einhver þeirra manna sem hefur verið bent á hafi brotið gegn börnum eða verið til rannsóknar vegna gruns um brot gegn börnum. Allar ábendingar og tilkynningar séu hins vegar teknar til skoðunar.

„Það er svo eftir atvikum á hverju er hægt að byggja, hvað verður úr þeim.“

Gæti verið um fleiri hópa að ræða

Lögreglan hefur einnig fengið ábendingar um hverjir það eru sem standa að þessum aðgerðum gegn meintum barnaníðingum.

Ævar segir ekki óþekkt að fólk taki lögin í sínar hendur en man þó ekki eftir alveg sambærilegu máli hér á landi. 

„Þetta er svipað trend og erlendis, þetta sprettur upp í bylgjum,“ segir hann. Því þurfi að taka með í reikninginn að það geti verið um fleiri hópa eða einstaklinga að ræða.

Spurður hvort lögreglan hafi tekið eftir að um sé að ræða einhvers konar bylgju hér á landi segir hann mögulega of snemmt að segja til um það. Ekki sé víst að öll svona mál rati inn á borð til lögreglu.

Ofbeldi leiði af sér meira ofbeldi

Hann tekur þó undir með Svölu Ísfeld, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, sem sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að svona aðgerðir gætu haft margfeldisáhrif. Um væri að ræða ógnvænlega stöðu sem gæti orðið að ógnvænlegri þróun.

„Fólk á ekki að taka lögin í sínar eigin hendur. Það á öllum að vera það ljóst, og allra síst með ofbeldi. Ofbeldi leysir engan vanda, það leiðir bara af sér meira ofbeldi. Svona lagað getur skapað mikla hættu og sett fólk í aðstæður sem það ræður ekkert við, þannig að það missir hlutina úr böndunum, sem getur leitt í báðar áttir,“ segir Ævar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert