Svikahringing úr númeri Arion banka

Höfuðstöðvar Arion banka sem nú hefur bæst í hóp fjölda …
Höfuðstöðvar Arion banka sem nú hefur bæst í hóp fjölda fyrirtækja og einstaklinga hverra númer eru nýtt í símasvindlið „spoofing“. Fyrirtækin fá ekki rönd við reist að sögn öryggisstjóra bankans fyrr en yfirvöld fjarskiptamála setja svikurunum stólinn fyrir dyrnar. Það hafa Finnar þegar gert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara ein gerð svikatilrauna sem við sjáum á Íslandi þar sem verið er að „spoof-a“ íslensk símanúmer þannig að móttakandi símtals telur sig vera að fá hringingu úr íslensku númeri,“ segir Hákon Lennart Akerlund, öryggisstjóri Arion banka, í samtali við Morgunblaðið í tilefni tveggja símtala sem starfsmanni Morgunblaðsins bárust.

Virtist sem þar væri hringt úr skiptiborðsnúmeri bankans og maður gerði grein fyrir því á mjög bjagaðri ensku að hann væri starfsmaður bankans. Hvorugt símtalið varð mikið lengra þar sem enskukunnátta hringjandans var svo bágborin að hann kom erindinu ekki frá sér áður en svarandinn hreinlega lagði á.

Hafa óskað eftir breytingum hjá PFS

„Eins og fólk tekur eftir eru það erlendir aðilar sem ávarpa það og það er mjög óheppilegt að nú sé símanúmer úr seríu Arion banka komið þarna inn, en mjög lítið sem við getum í raun gert. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa óskað eftir breytingum hjá Póst- og fjarskiptastofnun og fundir hafa verið haldnir, en hins vegar hefur ekkert verið gert í þessum málum enn þá,“ heldur öryggisstjórinn áfram.

Hákon Lennart Akerlund, öryggisstjóri Arion banka, kveður íslensk fjármálafyrirtæki hafa …
Hákon Lennart Akerlund, öryggisstjóri Arion banka, kveður íslensk fjármálafyrirtæki hafa óskað eftir breytingum af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar og nýtt fréttaflutning mbl.is þar sem rök. Ljósmynd/Arion banki

Í október greindi mbl.is frá því að Finnum hefði tekist að stöðva símasvindlið sem kallað er „spoofing“, það er þegar ákveðið símanúmer innanlands er notað sem eins konar ábreiða svo símtal virðist koma úr því á meðan það kemur hins vegar frá útlöndum og þeim sem hringir gengur misgott til ætlunar. Timo Saxén, upplýsingafulltrúi fjarskiptafyrirtækisins Telia í Finnlandi, og Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu Landsbankans, ræddu þá við mbl.is.

Notuðu frétt mbl.is sem rök

„Við notuðum einmitt fréttina ykkar sem rökstuðning og sögðum að ef Finnar gætu stöðvað þetta þá gætum við það líka, en við því var ekki brugðist og nú er staðan sú að óprúttnir aðilar geta misnotað sér íslensk símanúmer og látist vera innlendir aðilar. Í þeim dæmum sem við höfum séð er til dæmis verið að segja fólki að það eigi mikla fjármuni í bitcoin og til standi að loka reikningnum. Það þurfi því að stofna nýjan reikning og viðmælandinn býður fram aðstoð sína,“ segir öryggisstjórinn.

Felist sú aðstoð í því að sá sem svarar símtalinu er látinn sækja sér forrit í síma sínum sem gerir bölmennunum kleift að koma yfirtökubúnaði fyrir í síma hans. „Það er gert til að komast yfir aðgangsupplýsingar svo sem rafræn skilríki til að ná fjármunum af fólki,“ segir Hákon og bætir því við að þessi tegund svika sé mjög óheppileg. „Þetta er mjög leiðinlegt, en það eru fjarskiptafyrirtækin og Póst- og fjarskiptastofnun sem geta spornað við þessu, við hjá Arion banka getum því miður ekki fyrirbyggt svikatilraunir af þessu tagi,“ segir Hákon Akerlund að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert