Kennarar verði að slá af launakröfum sínum

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir þurfa …
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir þurfa viðhorfsbreytingu hjá kennurum. Samsett mynd

Formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir þurfa viðhorfsbreytingu hjá kennurum til að hægt sé að setjast aftur að samningaborðinu. Sveitarfélögin hafi teygt sig eins langt og þau geti til að koma til móts við kennara, en þeir verði að slá af launakröfum sínum eigi samningar að nást.

Greint var frá því í gær að ríkissáttasemjari sæi ekki ástæðu til þess að boða samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga aftur að samningaborðinu að svo stöddu, en fundað var í allan gærdag. Sagði hann fullreynt að svo stöddu að finna einhvern grundvöll til frekara samtals. Að öllu óbreyttu hefjast því verkföll um mánaðamótin.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segist sammála ríkissáttasemjara. Það sé ekki tilefni til að boða til frekari samningafunda fyrr en eitthvað breytist.

Hafa teygt sig eins langt og þau geta

„Þetta strandar á laununum áfram,“ segir Inga. Launakröfur kennara séu of háar og sveitarfélögin telji sig ekki geta komið til móts við þær kröfur.

 „Nei, nei. Við erum búin að bjóða allskonar og koma með allskonar leiðir til að hækka launin þeirra en það nær ekki þeim hæðum sem þau vænta.“ Langt sé á milli deiluaðila í þeim efnum.

Hvað þarf að gerast svo það sé hægt að fara að ræða aftur saman?

„Það þarf einhverja viðhorfsbreytingu, það er alveg ljóst.“

Af hálfu kennara?

„Já, við erum búin að teygja okkur mjög langt og treystum okkur ekki lengra. Það er bara þannig.“

Kennarar þurfi að endurhugsa málin

Þetta stendur þá þannig núna að kennarar þurfa að slá af sínum kröfum?

„Já, þeir þurfa eitthvað að endurhugsa málin. Það er alveg ljóst.“

Þannig það er ekki tilefni til að koma aftur að samningaborðinu fyrr en þeir hafa slegið af sínum kröfum?

„Nei, það er ekki tilefni ennþá til að setjast aftur. Það er búið að fara aftur og aftur yfir hlutina og alla fleti málsins. Þannig allavega í bili þá erum við komin í öngstræti,“ segir Inga.

„En auðvitað hættum við ekki að vinna eða tala saman og ef það eru einhverjar hugmyndir sem detta inn, þá vinnum við með það allt saman,“ bætir hún við.

Inga er þó svartsýn á að samningar náist fyrir mánaðamót, þannig líklegt sé að verkföll bresti á mánudaginn 3. febrúar.

Skoða lagaleg atriði vegna verkfallsboðana

Hún segir ýmis lagaleg atriði í skoðun af hálfu sveitarfélaganna, en það sé þó í forgrunni að ná samningum.

Hvaða lagalegu atriði er verið að skoða?

„Það eru ýmis atriði í kringum þessar verkfallsboðanir sem er verið að skoða, en það er ekkert sem ég get upplýst um.“

Að öllu óbreyttu hefjast verk­fallsaðgerðir á ný um mánaðmótin og kenn­ar­ar í fjórtán leik­skól­um og sjö grunn­skól­um leggja niður störf. Þá hef­ur Fé­lag fram­halds­skóla­kenn­ara gefið út að farið verði í at­kvæðagreiðslu um ótíma­bund­in verk­föll í nokkr­um fram­halds­skól­um, eft­ir að friðarskyldu lýk­ur um mánaðamót­in.

Formaður Kennarasambands Íslands hefur sagt að hann útiloki ekki að farið verði í allsherjarverföll hafi samningar ekki náðst þegar líður á febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert