Mikil og brýn þörf er á úrbótum í húsnæðismálum viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæði viðbragðs- og björgunaraðila í Skógarhlíð 14 var þegar orðið of þröngt og óhentugt fyrir starfsemina þegar í ljós kom mygla í kjallara byggingarinnar og víðar í húsnæðinu í fyrravetur svo grípa þurfti til tafarlausra aðgerða og voru einstakar starfseiningar á hrakhólum.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna (SST) voru fluttar til bráðabirgða á Laugaveg 166, í Víðishúsið svokallaða, sl. sumar og eru þar enn.
Að sögn Jóns Svanbergs Hjartarsonar, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, þurfti í maí í fyrra að ráðast í neyðarflutning vaktstofanna sem voru í kjallararýminu og sinna sólarhringsvöktun, þ.e.a.s. neyðarsvörun Neyðarlínunnar 112, Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra og Vaktstöð siglinga/Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, upp á efstu hæð byggingarinnar við Skógarhlíð.
Var Neyðarlínunni og Fjarskiptamiðstöðinni þar komið fyrir í matsalnum en vaktstöð Gæslunnar er í afmörkuðu rými á sömu hæð. Mötuneytinu var lokað og fær starfsfólk Björgunarmiðstöðvarinnar sendan mat á bökkum utan úr bæ. Vinnurýmið á efstu hæð er afar þröngt og óhentugt og segir Jón Svanberg að um algjört neyðarúrræði sé að ræða og ekki hugsað til langframa.
Fyrst og fremst varðar þetta ástand öryggi neyðarþjónustu og almannavarna á landinu. Nálægð starfsstöðva viðbragðsaðila, samvinna þeirra og samþætting starfseminnar getur skipt sköpum á neyðarstundum. „Stóra ógnunin í þessu er sú að ef það kemur upp brátt neyðarástand þar sem virkja þarf samhæfingarstöðina, þá er hún ekki á sama stað og þeir sem þurfa að sinna fyrsta viðbragðinu. Það er mjög bagalegt og í rauninni þjóðaröryggismál svo maður tali hreint út,“ segir hann. „Það skiptir líka miklu máli að þegar menn fara svona sitt í hvora áttina þá dofna tengslin sem gerir einnig að verkum að allt verður þyngra í vöfum,“ segir hann.
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.