Útlit er fyrir átakalítið veður á landinu um helgina og að það verði fínasta vetrarveður.
Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur segir að það fari heldur kólnandi og það frysti á öllu landinu.
Hann segir að víða verði úrkoma á landinu í dag en það dragi úr henni sunnanlands á morgun en norðan til verði snjókoma á morgun en él á sunnudaginn. Það birti hins vegar til sunnanlands á sunnudaginn.
Hrafn segir að það byrji að snjóa suðvestanlands í kvöld og það verði snjókoma fram á nótt úr skilum sem hangi yfir í kvöld og í nótt.
„Það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Þetta verða nokkrir sentímetrar af snjó sem geta fallið sunnan- og vestanlands. Þessi ofankoma ætti ekki að valda neinum vandræðum,“ segir hann.