Landsvirkjun hefur hætt endurkaupum af járnblendisverksmiðju Elkem á Grundartanga þar sem staða Þórisvatns er ívið betri en á sama tíma í fyrra. Skerðingar til stórnotenda á suðvesturhluta landsins verða þó óbreyttar áfram.
Staðan er enn vel undir meðallagi, en hefur þó skánað það mikið að ekki telst ástæða til að halda áfram endurkaupum.
Þetta kemur fram í tilkynningu Landsvirkjunar.
Vatnsárið byrjaði í sögulegu lágmarki. Í desember virkjaði Landsvirkjun því endurkaupaákvæði í samningum Elkem og var þá reiknað með að endurkaup stæðu fram í byrjun febrúar hið minnsta.
„Það var síðasta vatnssparandi úrræði sem Landsvirkjun hafði yfir að ráða og jafnframt það kostnaðarsamasta.“
Nú er vatnabúskapur Landsvirkjunar betri, m.a. vegna þriggja blotakafla í vetur og vatnssparandi aðgerða, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Staða bæði Blöndulóns og Hálslóns er með ágætum, þau eru bæði yfir meðallagi og ekki þörf á skerðingum á Norður- og Austurlandi að svo stöddu. Miðlunarstaða er því betri á Norður- og Austurlandi en syðra, líkt og undanfarin ár,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
„Þetta ójafnvægi í miðlunarstöðu á milli landshluta verður til vegna mismunandi veðurfars en einnig vegna takmarkana í flutningskerfi Landsnets. Landsvirkjun getur ekki flutt eins mikla orku að norðaustan og fyrirtækið vildi til að styðja við raforkuafhendingu sunnanlands og ná jafnvægi í miðlunarstöðu á milli landshluta.“