Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að árekstri fólksbifreiðar og strætisvagns sem varð á gatnamótum Snorrabrautar og Bergþórugötu í Reykjavík í morgun.
Að sögn lögreglu barst tilkynning um áreksturinn kl. 10.38, en fólksbifreiðinni var ekið austur Bergþórugötu og inn á gatnamótin, en strætisvagninum var ekið suður Snorrabraut þegar árekstur varð með þeim.
„Þarna eru umferðarljós, en ökumönnunum ber ekki saman um stöðu ljósanna þegar áreksturinn varð. Við hann hafnaði fólksbifreiðin utan vegar og valt, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Þau sem urðu vitni að árekstrinum eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið 1707@lrh.is,“ segir í tilkynningunni.