Lögreglan á Vesturlandi er með til rannsóknar hrottalega líkamsárás þar sem nokkur ungmenni gengu í skrokk á meintum barnaníðingi sem þau leiddu í gildru með tálbeituaðferð.
Samkvæmt heimildum mbl.is lá maðurinn þungt haldinn á sjúkrahúsi um tíma eftir árásina.
Árásin átti sér stað á Akranesi þann 20. desember síðastliðinn og einhverjar handtökur hafa átt sér stað vegna málsins. Þetta staðfestir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við mbl.is.
„Rannsóknardeildin hjá mér er með þetta mál til rannsóknar og það er verið að handtaka aðila sem stóðu að þessu,“ segir Ásmundur. Rannsóknin er sögð á lokametrunum.
Myndband af árásinni er eitt þeirra sem gengið hefur gengið manna á milli á samfélagsmiðlum upp á síðkastið, en Nútíminn greindi í síðustu viku frá því að hópur ungmenna stundaði þá iðju að leiða meinta barnaníðinga í gildru með tálbeituaðferð, í þeim tilgangi að ganga í skrokk á þeim.
Mennirnir eru sagðir hafa reynt að setja sig í samband við börn í gegnum samfélagsmiðla og ungmennin segjast hafa fengið þá til að mæta á ákveðna staði undir því yfirskini að þeir væru að hitta börn. Í kjölfarið hafi verið ráðist á þá og það tekið upp á myndband.
„Ég veit að myndband af þessu atviki fór í dreifingu og við erum með það í rannsóknardeildinni, við erum með upptökur af þessu. Þannig það liggur alveg fyrir hvað var gert þarna. Síðan erum við bara að finna út hverjir gerðu það,“ segir Ásmundur.
„Síðan fer þetta til saksóknara hjá okkur, þeir meta framhaldið og svo fer þetta væntanlega í ákæruferli,“ bætir hann við.
Þó verknaðurinn liggi fyrir þurfi að rannsaka allt í tengslum við málið, meðal annars hvernig árásin kom til.
Spurður hvort einhver gögn bendi til þess að sá sem ráðist var á hafi brotið gegn börnum eða sé grunaður um það, segist hann ekki geta tjáð sig um það.