Rannsókn lögreglu á banaslysi þegar ökumaður sendibifreiðar lést í árekstri við vinnuvél á gatnamótum Lækjargötu og Vonarstrætis í september á síðasta ári er á lokametrunum.
Þetta segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is. Einn er með stöðu sakbornings í málinu og reiknar Guðmundur með að gefin verði út ákæra á hendur honum.
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að ökumaður sendibifreiðarinnar hafi verið óhæfur til aksturs sökum áhrifa örvandi fíkniefnis en mikið magn örvandi fíkniefnis greindist við blóðrannsókn.
Ökumaður vinnuvélarinnar greindist með slævandi lyf í blóði í lækningalegum skammti, eins og það er orðað í skýrslunni.
Ökumaður sendibifreiðarinnar virti ekki biðskyldu þar sem hann beygði til vinstri frá Vonarstræti inn á Lækjargötu og ók í veg fyrir vinnuvélina sem ók Lækjargötu í átt að Reykjavíkurtjörn.
Gafflar framan á vinnuvélinni rákust inn í farþegarými sendibifreiðarinnar með þeim afleiðingum að ökumaðurinn lést.
Samkvæmt skýrslunni var meginorsök slyssins akstur ökumanns sendibifreiðarinnar undir áhrifum fíkniefna en aðrar orsakir slyssins voru að ökumaður hennar virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir vinnuvélina.