Sjálfstæðisfélag Hveragerðis skorar á Guðrúnu Hafsteinsdóttur að bjóða sig fram til formanns á landsfundi flokksins.
Í ályktun félagsins segir að félagið telji Guðrúnu „réttan aðila til að taka við forystu Sjálfstæðisflokksins enda hokin af reynslu af mörgum mikilvægum sviðum samfélagsins.“
Þá hafi hún sýnt það í verki á hinu pólitíska sviði sem og á frjálsum markaði hvers megnug hún sé.
Undanfarnar vikur hafa fjórir verið sterklega orðaðir við framboð til formanns. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Í yfirlýsingu á Facebook í gær greindi Þórdís Kolbrún, sem er varaformaður flokksins, að hún myndi ekki gefa kost á sér á landsfundinum.
Hinir frambjóðendurnir hafa ekki greint frá ákvörðun sinni.