Kennarar segja viðhorf launagreiðenda í kjaraviðræðum ekki aðeins birtast sem virðingarleysi við kennarastéttina í heild, heldur einnig sem virðingarleysi við hlutverk kennarastéttarinnar. Krafa kennara um samkomulag frá árinu 2016, um jöfnun launa, stendur óhögguð.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem samninganefndir allra aðildarfélaga Kennarasambands Íslands sendu frá sér fyrir skömmu. Samninganefndirnar funduðu í dag til að fara yfir stöðuna í kjaradeilunni, sem er öll í hnút.
Lýsa kennarar yfir miklum vonbrigðum með stöðuna í viðræðunum við ríki og sveitarfélög og skora á ríkisstjórnina að standa við orð sín í aðdraganda kosninga og leiða leiða deiluna til lykta.
„Skýrar vísbendingar liggja fyrir um kerfislægan og ómálefnalegan mun á launum sérfræðinga í fræðslustarfsemi á opinberum markaði og sérfræðinga á almennum markaði. Í samkomulagi frá 2016 liggja fyrir loforð opinberra launagreiðenda um að jafna þennan mun á 6 til 10 árum,“ segir í ályktuninni.
Samninganefndir allra aðildarfélaga hafi lýst því yfir í yfirstandandi kjaraviðræðum að það væri algjört forgangsatriði að við þetta yrði staðið.
„Þannig verði kjarasamningar allra félaga að innibera skuldbindingu launagreiðenda og áætlun um hvernig jöfnun launa skuli náð á næstu árum. Þessi krafa stendur enn óhögguð,“ segir þar einnig.
„Viðhorf launagreiðenda í kjaraviðræðunum birtist ekki aðeins sem virðingarleysi við kennarastéttina í heild heldur einnig sem virðingarleysi við hlutverk kennarastéttarinnar sem er að tryggja börnum okkar bestu menntun sem völ er á."
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is í gær að viðhorfsbreytingu þyrfti hjá kennurum til að hægt væri að setjast aftur að samningaborðinu.
Sveitarfélögin hefðu teygt sig eins langt og þau gætu til að koma til móts við kennara, en þeir yrðu að slá af launakröfum sínum ættu samningar að nást.
Síðasti fundur samninganefnda kennara, ríkis og sveitarfélaga var á miðvikudag og var þá reynt til þrautar að finna einhvern grundvöll til frekara samtals. Ríkissáttasemjari sagði það ekki hafa tekist og því sæi hann ekki tilefni til að boða til fundar að svo stöddu.
Að öllu óbreyttu hefjast verkfallsaðgerðir kennara á ný mánudaginn 3. febrúar.