Miðstjórn Ungs jafnaðarfólks (UJ) hefur skilað inn tillögu í samráðsgátt stjórnvalda þar sem áhersla er lögð á að tryggja sjálfbæran og skilvirkan ríkisrekstur og skynsamar hagræðingaraðgerðir.
Stjórnin leggur m.a. til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður í 25%, en svo hljómaði einnig eitt af kosningaloforðum Samfylkingarinnar fyrir liðnar alþingiskosningar.
„Þá vill Samfylkingin hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25% og heimila sveitarfélögum að leggja á svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir til að bregðast við vandanum á húsnæðismarkaðinum,“ sagði í umfjöllun mbl.is í október.
Miðstjórn UJ segir að það sé jákvætt að leitað sé eftir samráði við þjóðina við undirbúning hagræðingaraðgerða.
„Ríki og sveitarstjórnir hafa í gegnum tíðina ráðist í flatan niðurskurð á þjónustu sinni án samráðs við almenning sem hefur leitt til óánægju og minna trausts. Það er hughreystandi að ný ríkisstjórn leitist við að falla ekki í sama farið,“ segir í umsögninni.
Ráðleggingar UJ eru eftirfarandi þegar kemur að sparnaði í opinberum rekstri:
Tekið er fram að hagræðing og sparnaður megi þó ekki verða að bláköldum niðurskurði. Ríkisstjórn sem leidd sé af Samfylkingunni á að vernda og styrkja opinberu velferðarkerfin. Að fjárfesta í menntun og heilbrigði þjóðarinnar skili sér alltaf.