Félag sjálfstæðismanna í Ölfusi og sjálfstæðisfélag Reykjanesbæjar hvetja Guðrúnu Hafsteinsdóttur, þingmann og fyrrverandi dómsmálaráðherra, til þess að bjóða sig fram til formanns á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar.
„Sjálfstæðisfélagið Ægir [í Ölfusi] lýsir yfir stuðningi við Guðrúnu Hafsteinsdóttur og hvetur hana til að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi,“ segir í stuðningsyfirlýsingu sem María Fortescue, ritari Ægis, sendi mbl.is um kl. 17 í dag.
Í ályktun frá Sjálfstæðisfélagi Reykjanesbæjar sem var birt á Facebook á fimmtudag er einnig skorað á Guðrúnu. „Guðrún kom eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál á síðasta kjörtímabili og sem dómsmálaráðherra sýndi hún það að hún þorir að taka ákvarðanir sem sumum kunna að þykja umdeildar. Það er nákvæmlega það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf á þessari stundu,“ segir í ályktuninni.
Fleiri sjálfstæðisfélög úr suðurkjördæmi, heimakjördæmi Guðrúnar, hafa hvatt hana til þess að bjóða sig fram, þar á meðal sjálfstæðisfélag Hveragerðis og sjálfstæðisfélögin í Austur-Skaftafellssýslu.
Guðrún hefur sérstaklega verið nefnd sem líklegur arftaki Bjarna Benediktssonar ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrrverandi ráðherrum.
Áslaug hefur boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem búist er við því að hún tilkynni um framboð. Guðlaugur Þór sagði í samtali við Rúv í dag að tilkynning væri væntanleg frá sér.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sem einnig hefur verið nefnd í þessu sambandi, útilokaði framboð á miðvikudag.