Kristinn Sæmundsson, einnig þekktur sem Kiddi Kanína, fær ekki að bera nafnið Kanína eins og hann hafði óskað eftir. Mannanafnanefnd telur að nafnið geti orðið nafnbera til ama.
Þetta kemur fram í úrskurði mannanafnanefndar sem mbl.is hefur undir höndum.
„Nafnið Kanína er leitt af samnafninu kanína sem er heiti vel þekktrar dýrategundar sem oft er höfð sem gæludýr. Þótt nokkur dýraheiti séu einnig notuð sem mannanöfn, svo sem Björn, Úlfur, Arna og Lóa, eru heiti gælu- eða húsdýra almennt ekki notuð sem mannanöfn,“ segir í úrskurðinum.
Morgunblaðið ræddi við Kristinn fyrr í mánuðinum en hann upplýsti um það að hann hefði fyrst sóst eftir því til Þjóðskrár að fá að heita Kristinn Kanína Sigríðarson.
„Þetta er búið að þvælast í hausnum á mér í tvö ár og nú ákvað ég loksins að kýla á það,“ sagði Kristinn.
Sú stofnun vildi ekki samþykkja breytinguna og bar því við að nafnið Kanína væri ekki á mannanafnaskrá og kæmi ekki fyrir í manntölum frá 1703. Því var nafninu skotið til úrskurðar mannanafnanefndar sem hefur nú hafnað beiðninni.
Samkvæmt lögum um mannanöfn þá er tekið fram að eiginnafn megi ekki vera nafnbera til ama.
Nefndin tekur fram að erfitt sé að meta hvort að nafnið yrði Kristni til ama þar sem hann sé fullorðinn maður, en tekur fram að ef nafnið kæmist á mannanafnaskrá þá gæti nýfætt barn fengið nafnið Kanína.
„Má í því sambandi nefna að í beiðni umsækjanda kemur fram að nafnið hafi fyrst verið brandari en síðan fest við umsækjanda. Telur mannanafnanefnd að nafnið Kanína geti orðið nafnbera til ama og uppfylli því ekki skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn.“