Sektir vegna vopnaburðar hækka umtalsvert

Lágmarkssekt fyrir vopnaburð er nú 150 þúsund krónur og slík …
Lágmarkssekt fyrir vopnaburð er nú 150 þúsund krónur og slík brot fara nú á sakaskrá. mbl.is/Árni Sæberg

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir að reyna þurfi allt til sporna gegn auknum vopnaburði á Íslandi, einkum vopnaburði ungmenna.

Þorbjörg skrifar þetta í færslu á Facebook í dag, þar sem hún fagnar nýjum fyrirmælum ríkissaksóknara sem gera lágmarkssekt fyrir vopnaburð á almannafæri 150.000 kr., í stað 10.000 kr. Þetta hafi m.a. þær afleiðingar að slíkt brot fari á sakaskrá viðkomandi.

„Með því eru send skýr skilaboð. Vopnaburður er alvörumál og viðbrögðin við slíkum brotum eru í samræmi við það,“ skrifar hún en viðurkennir þó að þetta eitt og sér leysi ekki vandann.

„Til að sporna gegn vopnaburði og ofbeldi þarf svo einfaldlega vinnu á breiðum grunni. Samvinnu heimila og skóla, geðheilbrigðisþjónustu og löggæslu. Samfélagsins alls,“ bætir ráðherrann við.

Þorbjörg bendir einnig á að margir þeir sem bera hníf segi að þeir geri það því þeir upplifa sig ekki örugga „þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að öryggi þeirra sé ógnað“.

Fyrr í dag var greint frá því lögreglan leitaði að ung­menni sem talið er hafa meðhöndlað skamm­byssu í Múla­hverfi í gær­kvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert