Lögregla hefur ekki haft uppi á ungmenni sem talið er hafa meðhöndlað skammbyssu í Múlahverfi í gærkvöld. Þeir telja sig þó þekkja nokkra sem hafi verið með í för.
Talsverður viðbúnaður var í hverfinu vegna tilkynningarinnar og tók sérsveitin þátt í leitinni.
„Við teljum okkur hafa borið kennsl á einhverja þarna,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglu barst tilkynning frá íbúa í hverfinu sem hafði séð til hóps ungmenna á ferli og taldi sig hafa séð eitt þeirra handleika skotvopn.
Guðbrandur segir lögregluna hafa undir höndum myndefni úr öryggismyndavélum sem styðji við frásögn íbúans.
„Þær sýna okkur að um ungmenni er að ræða, eða undir tvítugu, og við ætlum að um skammbyssu sé að ræða en það er náttúrulega ekkert staðfest fyrr en við erum komin með ætlað vopn í hendurnar.“
Dregið var úr viðbúnaði eftir að ekki tókst að hafa uppi á ungmennunum og ljóst var að ekki væri um hættuástand að ræða.
„En sérsveitin var með þetta bak við eyrað um nóttina.“
Lögreglan er enn með málið til skoðunar og reyni nú m.a. að staðfesta hvort um sé að ræða góðkunningja lögreglunnar. Ekki hafa borist fleiri tilkynningar um málið.