Einn var handtekinn eftir að hann sparkaði í lögreglumann á öldurhúsi í miðborginni í gærkvöldi.
Lögreglan fékk beiðni vegna ofurölvi einstaklings sem var til vandræða á öldurhúsinu. Hann var beðinn um að yfirgefa staðinn en neitaði að verða við því og sparkaði að lokum í lögreglumann. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð og er málið til rannsóknar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls er 42 mál skráð í kerfum lögreglunnar á tímabilinu og gista fjórir fangageymslu lögreglu.
Lögreglan fékk tilkynningu um þrjá einstaklinga sem voru ölvaðir og með leiðindi við farþega í almenningsvagni. Þeim var vísað úr vagninum og gert að halda sína leið með öðrum hætti.
Tilkynnt var um eld í mannlausri bifreið í Kópavogi. Eldurinn, sem var töluverður, var slökktur af slökkviliðinu en altjón varð á bifreiðinni.
Ökumaður var stöðvaður í hverfi 112 sem reyndist aka sviptur ökuréttindum. Þá var hann grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og var hann handtekinn.
Þá voru skráningarmerki fjarlægð af 11 bifreiðum, ýmist vegna vanrækslu á tryggingum eða aðalskoðun.