Andlát: Olga Ágústsdóttir fornbókasali

Olga Ágústsdóttir fornbókasali á Akureyri er látin.
Olga Ágústsdóttir fornbókasali á Akureyri er látin.

Olga Ágústsdóttir, fyrrverandi fornbókasali, lést síðastliðinn föstudag, 24. janúar, á 90. aldursári.

Olga fæddist í Bolungarvík 29. júlí 1935 en ólst upp á Ísafirði og í Æðey.

Foreldrar Olgu voru hjónin Valgerður Kristjánsdóttir húsmóðir og kennari og Sigurður Ágúst Elíasson kennari, fyrrverandi yfirfiskmatsmaður á Vestfjörðum, síðar á Akureyri og kaupmaður í Reykjavík.

Olga lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands og samvinnuskólanum Vaar Gard í Stokkhólmi. Hún sinnti verslunar- og skrifstofustörfum hjá KEA, starfaði í gjaldeyrisdeild sænska sambandsins KF í Stokkhólmi og þar á eftir í fræðsludeild þar. Hún starfaði jafnframt hjá fræðsludeild SÍS, hjá skipafélaginu MS Thore í Gautaborg og var deildarstjóri hjá Kaupfélagi Borgfirðinga á Akranesi.

Hún starfaði jafnframt hjá ferðaskrifstofunni Útsýn og var ritari hjá Jóni Leifs tónskáldi. Þá kenndi hún vélritun og bókfærslu um árabil við Oddeyrarskóla og Glerárskóla á Akureyri.

Olga keypti rekstur fornbókaverslunarinnar Fróða á Akureyri árið 1984 og var fornbókasali í tæp 40 ár. Hún keypti húsnæði í Listagili á Akureyri og stóð þar ein að rekstri Fróða lengst af. Þar voru þúsundir titla á boðstólum. Olga átti auðvelt með að mæla með hentugu lesefni eftir efnum og aðstæðum. Hægt var að ræða við Olgu um höfunda og efnistök og fá góð ráð.

Olga var ritari Sambands eyfirskra kvenna, var dálkahöfundur í Tímanum í tvö ár, skrifaði greinar í Hlyn og í Samvinnuna. Þá var hún með þætti um matreiðslu í Degi.

Eiginmaður Olgu var Kristján Hannesson. Þau gengu í hjónaband 1964 og bjuggu fyrstu hjúskaparár sín í Reykjavík en keyptu jörðina Kaupang í Eyjafirði 1965. Kristján lést árið 2013.

Börn Olgu og Kristjáns eru sex; Valgerður rekstrarfræðingur, Sigríður skipulagsfræðingur, Helga hagfræðingur, Hannes tölvunarfræðingur, Ágúst flugmaður og Laufey lögfræðingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert