Tvö snjóflóð féllu í Enninu við Ólafsvík í kvöld. Eftir að fyrra snjóflóðið féll voru björgunarsveitir á norðanverðu Snæfellsnesi kallaðar til og þegar björgunarsveitarfólk var að meta aðstæður féll seinna flóðið.
Ákveðið var þá að draga björgunarsveitarfólkið til baka þar sem ekki lá neinn grunur um að einhver hafði orðið undir flóðinu. Staðan verður aftur metin í fyrramálið þegar það tekur að birta.
Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Óvissustigi var lýst yfir á Vesturlandi í kvöld vegna ofanflóðahættu. Búist er við mikilli úrkomu á utanverðu Snæfellsnesi næsta sólarhringinn með hlýindum. Í nótt er spáð mikilli úrkomu á svæðinu og mun rigningin vara fram eftir morgundeginum.
Atvinnuhús undir Ólafsvíkurenni hafa verið rýmd á meðan veðrið gengur yfir, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Þá eru vegir á norðanverðu Snæfellsnesi lokaðir vegna snjóflóðahættu og ófærðar. Biðlað er til notenda heilsugæslustöðvarinnar á Ólafsvík að dvelja ekki í þeim hluta hússins sem vísar upp í fjall.
Óvissustigi hefur einnig verið lýst á sunnanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum vegna ofanflóðahættu.
Jón segir að á vesturhelmingi landsins hafi verið talsvert um útköll björgunarsveitarinnar til að sinna ýmsum fokverkefnum.
Til að mynda hafi þakplötur, trampólín og aðrir lausamunir verið að losna og valda usla.
Jón segir hins vegar að lítið hafi verið um útköll í Reykjavík.