Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í dag tilkynningu um blóðugan mann á gangi í Efra-Breiðholti. Þegar lögreglan kom á staðinn vildi hann þó lítið ræða málin, en sjúkrabíll kom á vettvang og búið var um sár mannsins, að segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Þá ógnaði maður fólki með barefli í miðborginni og hafði lögregla uppi á honum. Lögreglumenn höfðu áður haft af honum afskipti og könnuðust því við kauða. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að maðurinn hafi verið rólegur og að honum hafi verið komið heim til sín.
Tilkynnt var um innbrot og þjófnað í nýbyggingu og þjófnað úr matvöruverslun, en það mál var afgreitt á staðnum. Einnig var tilkynnt um tilraun til þjófnaðar úr verslun en starfsmaður náði vörunum af meintum þjófi. Hann lét lögreglu hafa hníf sem þjófurinn á að hafa misst úr vasa sínum í versluninni.