Sjö hús rýmd á Patreksfirði

Rýmda þurfti sjö hús.
Rýmda þurfti sjö hús. mbl.is/Guðlaugur

Sjö hús voru rýmd á Patreksfirði í gærkvöldi. Um er að ræða sex heimili og húsnæði bæjarskrifstofanna. 

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá þessu í færslu á Facebook. 

Um klukkan 22.45 lýsti Veðurstofa Íslands yfir hættustigi á Patreksfirði. Í kjölfarið voru húsin rýmd. 

14 íbúar yfirgáfu heimili sín

„Alls voru 14 íbúar í þessum húsum og fóru nokkrir til vina og vandamanna en hinir í gistingu á vegum sveitafélagsins og RKÍ deildarinnar á staðnum. Rýming gekk vel og íbúar tóku henni með rósemd. Þegar birtir af degi verður hægt að skoða aðstæður m.t.t. hvenær óhætt sé að aflýsa hættustiginu og bjóða íbúum að halda heim á ný,“ segir í færslu lögreglunnar. 

Þá voru björgunarsveitir kallaðar út á Patreksfirði í gærkvöldi. „Þakplötur og lauslegt var að fjúka á Patreksfirði og nú snemma í morgun var björgunarsveit kölluð út í Bolungarvík vegna sömu ástæðu,“ segir í færslu lögreglunnar. 

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum. Mikil úrkoma var á svæðinu nótt og hefur vindhraði verið töluverður á Vestfjörðum öllum. Gert er ráð fyrir því að veðrið gangi niður um eða upp úr hádeginu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert