Velktist í kerfinu í hálft fimmta ár

Loks er komin endanleg niðurstaða í málið og skal maðurinn …
Loks er komin endanleg niðurstaða í málið og skal maðurinn fara af landi brott. mbl.is/Hari

Íslenska ríkið var sýknað af kröfu Palestínumanns nokkurs sem sótti um alþjóðlega vernd hér á landi í júlí 2020, en var synjað um efnismeðferð umsóknar sinnar á grundvelli þess að hann hafði þá þegar fengið slíka vernd í Grikklandi. Maðurinn sætti sig ekki við þau málalok og reyndi ítrekað að fá niðurstöðu Útlendingastofnunar og síðar kærunefndar útlendingamála hnekkt, en nú, hálfu fimmta ári síðar, er loks komin endanleg niðurstaða í málið og skal maðurinn fara af landi brott.

Dómur þar um gekk í Landsrétti sl. fimmtudag.

Málið hverfðist um gildi úrskurðar kærunefndar útlendingamála sem staðfest hafði þá ákvörðun Útlendingastofnunar að taka ekki umsókn Palestínumannsins um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, þar sem hann hafði áður fengið slíka vernd í Grikklandi. Skyldi vísa manninum af landi brott svo fljótt sem verða mætti, en sú brottvísun gekk ekki þrautalaust þar sem maðurinn neytti allra bragða til að forðast brottvísun. Fór hann m.a. huldu höfði.

Í héraði, þar sem dómur féll Palestínumanninum í vil, var íslenska ríkið dæmt til greiðslu málskostnaðar hans upp á ríflega eina og hálfa milljón. Maðurinn fékk gjafsókn fyrir Landsrétti og verður þóknun lögmanns hans þ.a.l. greidd úr ríkissjóði, en hún nemur 1,2 milljónum króna. Ekki kemur fram í dóminum hvaða kostnaður hefur fallið til við málareksturinn í stjórnsýslunni, þ.e. hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.

Bar sjálfur ábyrgð á töfum

Þá féllst Landsréttur ekki á það sjónarmið Palestínumannsins að hann bæri ekki sjálfur ábyrgð á töfum málsins í kerfinu, heldur þvert á móti.

Sagði Landsréttur að hann bæri sjálfur ábyrgð á þeirri töf sem orðið hefði á að hann yfirgæfi landið. Er m.a. vísað til þess í rökstuðningi kærunefndar útlendingamála, sem hafnaði kröfu um endurupptöku máls hans 21. október 2021, að viðkomandi hafi tafið afgreiðslu málsins með því að mæta ekki í sýnatöku vegna covid-19 sem fara átti fram í aðdraganda brottflutnings hans til Grikklands. Með því að mæta ekki til sýnatökunnar hafi ekki orðið af flutningnum. Hafi Palestínumaðurinn þó verið búinn að samþykkja að fara til Grikklands.

Í dómnum eru rakin samskipti mannsins við lögregluna og byggt á dagbók lögreglu þar um. Segir að af því verði séð að lögreglan hafi leitað allra leiða sem þá voru færar til að fá manninn fluttan af landi brott

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert