Kona á sextugsaldri, sem er fyrrverandi verkefnastjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands, hefur verið ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa svikið út samtals 156.298.529 krónur frá Sjúkratryggingum með því að hafa falsað kröfur í kerfum stofnunarinnar sem áttu sér ekki stoð í raunveruleikanum. Voru kröfurnar gerðar í nafni eiginmanns konunnar og tveggja sona, en mikill meirihluti fjármunanna var svo ráðstafað áfram til konunnar.
Konan er ákærð fyrir skjalafals í opinberu starfi, en til vara fjársvik, en brot hennar áttu sér stað á árunum 2013 til og með 2024. Bjó hún til kröfur í tölvukerfi SÍ í nafni eiginmanns síns, sem nú er látinn, og sona sinna tveggja, en þeir eru rúmlega þrítugir í dag, en rétt rúmlega 20 ára þegar brot konunnar hófust.
mbl.is sagði frá málinu fyrst í maí í fyrra, en þá staðfesti Sigurður H. Helgason, forstjóri SÍ, að búið væri að kæra málið til lögreglu og að það væri komið á borð héraðssaksóknara. Hann staðfesti jafnframt að konunni hafði verið vikið úr starfi.
Voru kröfurnar sagðar vera vegna erlends sjúkrakostnaðar auk þess sem þeir voru skráðir sem fylgdarmenn ótengdra aðila sem nutu læknismeðferðar erlendis.
Í ákærunni, sem Rúv greindi fyrst frá í morgun, segir jafnframt að konan hafi í kjölfar þess að falsa kröfurnar blekkt aðra starfsmenn stofnunarinnar til að samþykkja þær og að lokum greiða þær út til sona sinna og eiginmanns.
Fékk eiginmaðurinn greiddar samtals 27,1 milljón inn á bankareikning sinn á árunum 2013 til 2018, en það var með samtals 61 greiðslu. Ráðstafaði hann svo 15,8 milljónum áfram til konunnar.
Eldi sonurinn er ákærður fyrir að hafa tekið við 48,9 milljónum í samtals 70 tilvikum frá árinu 2013 til 2023, en hann ráðstafaði 44,2 milljónum áfram til móður sinnar.
Í tilfelli yngri sonarins var um 85 greiðslur að ræða frá árinu 2014 til 2024 upp á samtals 80,3 milljónir, en hann ráðstafaði 72,5 milljónum áfram á bankareikning móður sinnar.
Eru synirnir ákærðir fyrir peningaþvætti með sinni aðkomu að málinu.