„Við kynntumst á sérsveitarnámskeiði í Þýskalandi 2010 og urðum þá góðir félagar.“ Með þessum orðum hefst frásögn Tjörva Einarssonar, lögreglumanns til áratuga, meðal annars í sérsveit ríkislögreglustjóra, og nú fagstjóra skilríkjamála hjá Þjóðskrá.
En sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir, segir í ágætu ljóði Sigurðar Nordal, og þá kúvendingu sögunnar, sem hefst á sérsveitarnámskeiði í Þýskalandi fyrir fimmtán árum, gætu fæstir líkast til ímyndað sér. Stutta útgáfan af kollsteypu þeirri er að Tjörvi sendi nú í öndverðan janúarmánuð frá sér glæpasögu sem vermir nú hillur bókaverslana. Hann getur bara ekki lesið hana sjálfur af því að hann skilur ekki orð.
Lengri útgáfuna með skýringum má hins vegar lesa hér:
Sá góði félagi sem Tjörvi minnist úr Þýskalandsförinni er finnski lögreglumaðurinn Seppo Mustaluoto og ekki óraði íslenska sérsveitarmanninn fyrir því hlutverki sem örlögin skópu þeim starfsbræðrunum mörgum árum síðar.
„Hann er svolítið eldri en ég og fór á eftirlaun þegar hann varð fimmtugur og fór í kjölfarið að skrifa bækur og var einhvern tímann nýlega að segja mér frá nýjustu bókinni sinni,“ segir Tjörvi frá og kveðst hafa trúað Finnanum fyrir því að allt frá blautu barnsbeini hefði draumur hans einmitt verið að skrifa bók.
Þeir félagarnir hafi svo farið að „blaðra einhverjar pælingar“, eins og Tjörvi orðar það, hann sagt Mustaluoto frá raunverulegu lögreglumáli sem hann taldi mögulegt að byggja hreinræktaða glæpasögu á og boltinn hafi tekið að rúlla. „Við fórum að kasta hugmyndum á milli í símtölum og svo skrifar hann kafla á finnsku og ég þýði hann yfir á ensku með Google Translate áður en ég skrifa annan kafla á íslensku og þýði hann yfir á ensku á sama hátt og þannig gengur þetta,“ segir Tjörvi frá.
Upphaflega hafi þeir félagarnir gælt við svo háleit markmið sem að vera tilbúnir með eina bók á þremur tungumálum til útgáfu, en aftur má þá vísa í ósinn og uppsprettuna í ljóði Nordal. Ekki varð af þrítyngdri bók í fyrstu umferð.
„Hann finnur svo útgefanda þarna úti. Þarna var hann búinn að gefa út þrjár eða fjórar bækur, allt glæpasögur nema eina – sú er viðtalsbók við finnska hermenn og sérsveitarmenn sem hafa gegnt þjónustu í Afríku og Afganistan og víðar,“ heldur Tjörvi frásögninni áfram og segir aðspurður að þeir hafi hins vegar ekki gengið til samninga við útgefanda Mustaluoto heldur fundið sér nýjan útgefanda fyrir sína fyrstu bók. Þar er á ferð stór finnsk útgáfa, Otava, sem Tjörvi segir hafa sinnt þeim samstarfshöfundunum og félögunum mjög vel gegnum útgáfu þeirra fyrstu bókar. Meira af því hér á eftir.
Áður en hulunni er svipt af bókinni sjálfri, Hylkeenmetsästäjä, eða Selveiðimanninum, er Tjörvi, sem fæddur er í þennan heim árið 1978, beðinn um að gera grein fyrir ferli sínum í lögreglunni þar sem hann hóf störf árið 2000 og starfaði þar til hann færði sig nýlega yfir til Þjóðskrár.
Tjörvi hóf störf sem afleysingamaður, hóf nám við Lögregluskóla ríkisins árið 2002 og fluttist tímabundið yfir til Hafnarfjarðar til lögreglustarfa. Hann sinnti svo rannsóknum í fjársvikamálum áður en hann stóðst hið stífa inntökupróf í sérsveitina og starfaði sem sérsveitarmaður í sjö ár undir stjórn og handleiðslu hins annálaða Guðmundar Ómars Þráinssonar, þekkts húsgagns í World Class í Fellsmúla á ofanverðum tíunda áratug aldarinnar sem leið og atgervismanns hins mesta.
Tjörvi starfaði í alþjóðadeild þar sem hann sinnti málefnum tengdum löggæslustofnununum Interpol og Europol auk Schengen og Evrópusambandslandamæravaktarinnar Frontex. „Mér hlotnaðist svo sá heiður að vera sendur í skóla alríkislögreglunnar FBI í Bandaríkjunum sem var andskoti gaman. Tók þar til dæmis námskeið í „criminal profiling“ sem var algjörlega stórkostlegt,“ rifjar lögreglumaðurinn fyrrverandi upp.
Greinin sem hann nefnir hefur fyrir margt löngu verið gerð ódauðleg í stílfærðum meðförum handritshöfunda ótal kvikmynda og sjónvarpsþátta, þar sem vinsælt þykir að hengja hana á rannsóknir á raðmorðingjum, en sé lífseig skilgreining fræðimannanna Torres, Boccaccini og Miller frá 2006 lögð til grundvallar snýst „criminal profiling“, sem þýða mætti lauslega sem afbrotasniðgreiningu, um að nýta vettvangsgögn til að draga upp mynd af þeim brotamanni sem þar var á ferð, allt niður í persónuleika hans og geðslag.
Og svo snýrðu bara baki við löggæslustörfum eftir að hafa gengið í gegnum þessa eldskírn fræðanna?
„Já, það var vegna þess að mér bauðst skemmtilegt starf þar sem ég gat látið nördinn í mér blómstra,“ svarar Tjörvi dreymnum rómi og blaðamaður gerir vonlausa tilraun til að sjá nörd hjá Þjóðskrá fyrir sér hjálm- og grímuklæddan með Heckler & Koch MP5-hríðskotabyssu á lofti, tilbúinn að láta skeika að sköpuðu í nafni þjóðaröryggis og velferðar íslenska ríkisins í blóðugu uppgjöri við siðblindustu bölmenni skipulagðrar glæpastarfsemi á 21. öld. Myndin kemur seint og illa upp í hugann.
„Ég sit núna þar og sé um útgáfu vegabréfa,“ heldur Tjörvi áfram og rífur blaðamann harkalega út úr dagdraumum sínum, „þau eru forprentuð erlendis en við persónugerum allt hérna heima. Við kaupum hráefnið og prentum svo inn í það,“ útskýrir hann af störfum sínum sem útheimta hvorki notkun skotvopna né greiningu á hugarheimi og manngerð íslenskra raðmorðingja, enda töluvert síðan Axlar-Björn var handtekinn á páskadag árið 1596 og steindrepinn á Laugarbrekkuþingi í kjölfarið.
Að starfsferli Tjörva afgreiddum verður ekki lengur umflúið að gera grein fyrir ritstörfum hans, glæpasögunni Selveiðimanninum sem nú prýðir bókahillur í Finnlandi undir merkjum Otava-forlagsins.
„Þau ákváðu að þau vildu gefa bókina út, það gekk mjög hratt fyrir sig og við tók ritstjórnarferli sem fór náttúrulega fram á finnsku þannig að meðhöfundur minn sat dálítið uppi með vinnuna í því og þá kom líka fljótlega í ljós að það gekk ekki að skrifa bók í gegnum Google Translate,“ segir Tjörvi og hlátur höfundarins brýst fram.
Þetta hafi þeir Mustaluoto rekið sig á þegar hinir fínþráðóttari vefir textavinnslunnar tóku við og gæta þurfti að gæðum og framsetningu finnsks málsniðs og málfræði sem eru ekkert grín og getur blaðamaður vottað eftir blaðamennskunám við Háskólann í Helsinki fyrir rúmum tveimur áratugum þar sem sú eldskírn að bera „h“ fram á eftir sérhljóða gleymist seint. P.s. Fyrirlestrar í skólanum voru á ensku.
„Reyndar sá ég aldrei fyrir mér í upphafi að þetta yrði að einhverju, leit bara á þetta sem skemmtilegt ævintýri, við félagarnir að skrifa eitthvað saman,“ játar Tjörvi og kveðst í framhaldinu vel hafa getað lifað með því að sjá frumeintak bókar með nafni sínu á uppi í hillu þótt eintökin hefðu aldrei orðið fleiri en það. En eintökin urðu fleiri og Hylkeenmetsästäjä kom út í Finnlandi 9. janúar. Selveiðimaðurinn. Á fjórða hundrað síður. Manni verður ekki um sel við slíkan titil og umfang glæpasögu.
Og nú verðurðu að segja mér um hvað hún fjallar.
„Já,“ segir nördinn á Þjóðskrá Íslands og kætin leiftrar í rómi hans, „bókin byrjar á því að lík af óþekktum manni finnst norður á Ströndum. Sagan gerist að miklu leyti þar, aðallega vegna þess að þangað á ég ættir að rekja, á þetta stórkostlegasta svæði sem ég þekki,“ heldur Tjörvi áfram.
Í Selveiðimanninum segir af rannsóknarlögreglumanninum Reimari Sigurðssyni sem fenginn er til að sinna málinu. Í ljós kemur að sá, sem líkið var í lifanda lífi, var skotinn með öflugum riffli og grunsemdir vakna um að hann hafi verið rússneskur njósnari í baktjaldamakki. Finnskur lögreglumaður úr þarlendu öryggislögreglunni Supo kemur til aðstoðar við rannsóknina og inn í málið fléttast njósnir og valdatafl stórvelda, en jafnframt ástir, örlög og fortíð Reimars Sigurðssonar – ástir og örlög eru vitaskuld alfa og ómega hverrar málsmetandi glæpasögu.
Ekki er þó ætlunin að eyðileggja skemmtunina fyrir íslenskum lesendum með því að gaspra um söguþráð, fléttu, föflu, myndhvörf og minni og hvað það heitir nú allt saman í viðjum bókmenntafræðinnar áður en þeir geta sjálfir notið Selveiðimannsins á íslensku, en vitanlega svipast Tjörvi nú um eftir íslenskum útgefanda til að veita Reimari Sigurðssyni ofan í glæpasagnaþyrsta íslenska þjóð.
En sagðirðu að þetta væri byggt á máli sem þú hefðir fengist við?
Blaðamaður fyllist faglegum beyg og verður eitt andartak bráðendis hlessa yfir að hafa algjörlega misst af því þegar rússneski njósnarinn var skotinn svo eftirminnilega með 50 kalíbera riffli norður á Ströndum hér um árið.
Óttinn reynist ástæðulaus.
„Þegar ég var í alþjóðadeildinni var ég að vinna mikið í málum sem höfðu mikla alþjóðlega skírskotun og þetta var mál sem við spunnum sögu í kringum í einhverjum svörtum lögguhúmor. Málið sjálft var ekkert líkt þessu sem er í bókinni, þetta var bara okkar leið til að gera hversdaginn aðeins léttari,“ svarar Tjörvi.
Blaðamaður bendir viðmælanda sínum á að hann sé kominn í einhvers konar speglaða samkeppni við finnsku glæpaskáldkonuna Satu Rämö sem hefur komið Ísafirði rækilega á heimskortið með bókum sínum um rannsóknarlögreglukonuna Hildi sem einnig teflir fram finnskri gestalöggu á Íslandi. „Já, hún er risastjarna í Finnlandi,“ kannast Tjörvi þegar við.
Segir hann þá Mustaluoto nú hafa sniðið sér ákveðið vinnuferli. „Fyrsta bókin var auðvitað svolítið erfið í fæðingu, að skrifa einn kafla og skiptast á, svo aðferðin sem við notum í dag er sú að ég fer til hans í viku og við skrifum í viku. Svo kemur hann hingað og við skiptumst svo á tölvupóstum á milli,“ útskýrir höfundurinn og ljóstrar því þar með augljóslega upp að bók númer tvö sé komin í ferli í þessu glæpsamlega norræna samstarfi þeirra.
„Hún er það og við erum að fara að skila henni inn til útgefanda hvað úr hverju,“ segir Tjörvi hispurslaust og ber starfsfólki finnsku útgáfunnar Otava mjög vel söguna. „Þetta er einn af elstu og stærstu útgefendunum í Finnlandi, þeir eiga til dæmis sína eigin prentsmiðju og líka að hluta til sína eigin bókabúðakeðju,“ heldur hann áfram.
Starfsfólk Otava hafi strax við fyrsta handrit farið að tala um seríu og segir Tjörvi ljóst að mikið púður hafi verið lagt í að auglýsa útgáfu Hylkeenmetsästäjä í Finnlandi frá fyrsta degi.
„Til dæmis hefur útgáfan birt mikið efni um okkur á Instagram og Facebook og bókaáhrifavaldar eru risastór þáttur í Finnlandi. Þeir halda úti síðum á samfélagsmiðlum og bókaútgefendur senda þeim bækur til umfjöllunar,“ segir Tjörvi og kveður bók þeirra Mustaluotos hafa hlotið dóma hina ágætustu, hvort tveggja hjá áhrifavöldum og í ritdómum finnskra fjölmiðla.
Aðspurður segir Tjörvi von á næstu bók seríunnar á næsta ári, hún eigi eftir að fara í gegnum allt ritstjórnarferlið og rýninguna hjá vökulum augum Otava. Augljóst er að jólin eru enginn sérstakur fengitími finnska bókmenntaársins og þetta staðfestir Tjörvi þegar blaðamaður imprar á því. Kannski er jólabókaflóðið bara séríslenskt fyrirbæri eins og almanakssjóðsgjaldið gamla.
Þú ert náttúrulega búinn að fá eintak af bókinni, hvernig er sú tilfinning að halda á bók eftir sjálfan sig sem aðeins hefur komið út á einu tungumáli en maður skilur samt hvorki upp né niður í?
„Það er svolítið súrrealískt,“ játar Tjörvi og hlær um leið og hann kveðst nú hafa komið sér upp stöðluðum brandara þegar hann sé spurður út í söguþráð Hylkeenmetsästäjä. „Ég hef ekki hugmynd um það, ég skil ekki finnsku!“ segir hann og bendir um leið á staðreynd sem fáir rithöfundar heimsins, ef nokkrir, gætu játað á sig:
„Ég hef ekki lesið mína eigin bók, í alvöru talað, öðruvísi en í Google Translate-útgáfu,“ segir Tjörvi Einarsson við lok samtals, íslenskur upprennandi glæpasagnahöfundur á finnskum markaði með sterka tengingu við lögregluna, Þjóðskrá Íslands og Strandir. Eitruð blanda.