Hermann Nökkvi Gunnarsson
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að stefna ríkisstjórnarinnar um að setja komugjöld á ferðamenn á meðan unnið er að útfærslu auðlindagjalds sé fáránleg.
„Við höfum komið því skýrt á framfæri þar að einhvers konar hringl með það að setja fyrst komugjöld og svo einhverskonar aðra gjaldtöku er algjörlega fáránleg hugmynd. Maður hringlar ekki á þann hátt með grundvallaratvinnugreinar þjóðarinnar,“ segir Jóhannes.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um upptöku auðlindagjalds fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands.
„Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld,“ segir í stjórnarsáttmálanum.
Í Spursmálum síðasta föstudag var Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra til viðtals þar sem hún sagði miklu máli skipta að tryggja fyrirsjáanleika þegar kæmi að nýrri gjaldtöku.
Jóhannes segir að ferðaþjónustan sé í miklum samskiptum við ríkisstjórnina og að samskiptin séu góð. Hann segir algjört skilyrði að ferðaþjónustan fái að lágmarki 12 mánaða fyrirvara áður en gjaldtaka tekur gildi.
„Það skiptir höfuðmáli til þess að svona gjaldtaka nái markmiðum sínum og verði ekki til þess að eyðileggja bæði rekstur fyrirtækja og samkeppnishæfni allrar greinarinnar og þar með skatttekjur ríkisins,“ segir Jóhannes.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag