217 nemendur útskrifuðust frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu á laugardag. Fimm nemendur luku doktorsprófi, tveir frá sálfræðideild, tveir frá verkfræðideild og einn frá tölvunarfræðideild. Meistaranámi luku 34 nemendur og 155 nemendur grunnnámi. Þá luku 23 nemendur diplómanámi.
Flestir útskrifuðust frá tæknifræðideild eða alls 103. Frá tölvunarfræðideild útskrifuðust 48 nemendur og 26 frá viðskipta- og hagfræðideild. Frá verkfræðideild útskrifuðust fimmtán nemendur og einum færri frá lagadeild. Þá útskrifuðust átta nemendur frá sálfræðideild og þrír frá íþróttafræðideild.
Ragnhildur Helgadóttir rektor rifjaði í ræðu sinni upp 60 ára sögu tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík en deildin á rætur sínar að rekja til Tækniskóla Íslands sem settur var í fyrsta sinn í október árið 1964.
Árið 2002 varð Tækniskólinn að Tækniháskóla Íslands og árið 2005 sameinuðust Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskólinn. Í dag er tæknifræðideild ein af þremur akademísku deildum tæknisviðs HR sem menntar fólk í tæknifræði, byggingafræði og iðnfræði.
„Við í Háskólanum í Reykjavík, og ég sem rektor, erum stolt af þessari sögu og af þeim fjölbreyttu möguleikum sem við bjóðum - m.a. í tæknifræðideild. Við lítum nefnilega á menntun sem fléttu en ekki línu,“ sagði Ragnhildur og hélt áfram:
„Menntun á ekki að vera þannig að þú farir inn á einum enda og spýtist svo fullmótuð eða -mótaður út á öðrum enda. Það hentar sumum, en kannski fæstum! Ef vel á að vera fer fólk í og úr mismunandi námi, þjálfun og námskeiðum eftir því sem þarfir og langanir þess - og samfélagsins í kringum það - breytast.“
Í ræðu sinni minnti Ragnhildur einnig á mikilvægi þverfaglegs vísindastarfs.
„HR sinnir bæði tækni og samfélagi – og eitt af því sem við erum stoltust af er hve mikil samvinna er þvert á svið og faggreinar. Við vitum að þverfagleikinn er lykilatriði en skapandi hugsun skipir líka máli, samhygð og fjölbreytileiki; að við erum sem betur fer ekki öll að mennta okkur í því sama og við höfum ólík áhugasvið en við virðum og skiljum áhuga hvers annars.“