Inga segir flokksbróður sinn ekki vanhæfan

Inga segir það í raun engu máli skipta þó að …
Inga segir það í raun engu máli skipta þó að Sigurjón gæti grætt á frumvarpinu. Samsett mynd

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, sé ekki vanhæfur þegar kemur að tilvonandi strandveiðifrumvarpi. Sigurjón á strandveiðibát sem hann hefur gert út síðustu ár og sem verðandi formaður atvinnuveganefndar mun frumvarpið koma til kasta nefndarinnar sem hann leiðir.

Líkt og fram kom í Spurs­málum á mbl.is á Sig­ur­jón ásamt eig­in­konu sinni fyr­ir­tækið Sleppa ehf. sem gert hef­ur út bát­inn Sig­ur­laugu SK 138 til strand­veiða hin síðustu ár og hafa tekj­ur af út­gerðinni numið tug­um millj­óna króna.

„Hvað finnst þér um öryrkjann mig, á ég að vera skipta mér af kjörum öryrkja? Hvað finnst þér um bændur eða aðrar stéttir? Heilbrigðisstarfsfólk og annað slíkt. Meginreglan er sú að almenn löggjöf á Alþingi Íslendinga gerir ekki alþingismenn vanhæfa að einu eða neinu leyti,“ segir Inga Sæland í samtali við mbl.is spurð að því hvort að Sigurjón eigi að eiga aðkomu að frumvarpinu við meðferð þingsins. 

Frumvarp um strandveiðar lagt fram

Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar má sjá að frumvarp verður lagt fram á vorþinginu um stóreflingu strandveiða sem á að tryggja að veiðar geti staðið yfir í 48 daga.

Útgerðin Sleppa ehf. gæti því notið veru­lega góðs af þess­um breyt­ing­um. Eins má gera ráð fyr­ir því að verðlagn­ing á bát­um sem gerðir eru út í þessu skyni kunni að taka breyt­ing­um í ljósi þess að tekju­öfl­un­ar­mögu­leik­ar strand­veiðisjó­manna munu vænkast til muna.

Sigurjón hefur sagt bátinn vera í söluferli.

„Það í rauninni skiptir engu máli

Spurð hvort að Sigurjón sé ekki vanhæfur í ljósi þess að hann gæti grætt á frumvarpinu, verði það samþykkt, sem hann á eftir að eiga aðkomu að segir Inga:

„Það í rauninni skiptir engu máli hvað lýtur að almennri löggjöf sem sett er, að við erum ekki vanhæf þar.“

Þannig hann er ekki vanhæfur að þínu mati?

„Nei hann er það ekki.“

Sinnti ekki upplýsingaskyldu

Í Spursmálum var Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra til viðtals og þar full­yrti hún að Sig­ur­jón myndi ekki koma að af­greiðslu máls­ins vegna þeirra hags­muna sem hann gætir af því að strandveiðar verði stórauknar.

Eins og greint hefur verið frá þá sinnti Sig­ur­jón ekki upp­lýs­inga­skyldu sem á hon­um hvíl­ir þegar kem­ur að hags­muna­skrán­ingu Alþing­is.

Þannig má sjá að í þriðju grein skrán­ing­ar­inn­ar seg­ist hann eng­in tengsl hafa við starf­semi sem „rek­in er sam­hliða starfi alþing­is­manns og er tekju­mynd­andi fyr­ir hann eða fé­lag sem hann á sjálf­ur eða er meðeig­andi í.“

Samt á hann útgerðina Sleppa ehf. ásamt konu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert