„Nefndin var einróma um niðurstöðu sína um að kosningar stæðu og úthlutun þingsæta eftir að hafa farið mjög ítarlega yfir málið,“ segir Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kosninga.
Nefndin var stofnuð eftir að umsögn landskjörstjórnar var skilað til Alþingis en þar kom fram að nokkrir annmarkar hefðu verið á framkvæmd kosninganna.
Í samtali við mbl.is segir Dagur að nefndin hafi fundað stíft og farið vel yfir málið. Kallaðir voru til gestir og umsagnir frá þeim sem að málinu komu og má finna gögn nefndarinnar á vef Alþingis þar sem þau eru opinber.
Þing verður sett á morgun og segir Dagur að vinnan í nefndinni hafi verið ánægjulegt upphaf á þingferli sínum.
„Mér fannst þingmenn, sem komu náttúrulega þarna úr öllum flokkum sem eiga sæti á þinginu, nálgast þessi mál af mikilli yfirvegun og málefnalega. Það örlaði hvergi á því að það væru einhverjar pólitískar skotgrafir í þessu heldur fyrst og fremst vandvirkni og ábyrgð sem mér fannst satt að segja ekkert sjálfgefið,“ segir þingmaðurinn og bætir við:
„Ég var bara ánægður að kynnast því og vonandi veit það bara á gott varðandi andann í þinginu almennt.“