Mikill vatnselgur og verður út vikuna

Dæmi eru um að bílar geti drepið á sér þegar …
Dæmi eru um að bílar geti drepið á sér þegar mikill vatnselgur er á götunum. Ljósmynd/Eva Björk

„Yfir helgina gekk alveg ágætlega og við náðum að leysa úr langflestum verkefnum þar sem við lögðum áherslu á ábendingar frá íbúum.“

Þetta segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, við mbl.is en mikið hefur mætt á honum og hans mönnum síðustu daga við að moka frá niðurföllum og sjá hvort vatnið hafi ekki átt greiðan aðgang ofan í þau í kjölfar asahlákunnar.

„Við fengum mikið af ábendingum vegna polla á götum og við höfum reynt að bregðast skjótt og vel við. Það er mikill vatnselgur á götum borgarinnar og verður það örugglega út vikuna. Það á að rigna mjög mikið og á fimmtudaginn til að mynda lítur ekkert vel út þar sem djúp lægð skellur á okkur,“ segir Hjalti.

Götulokanir vegna þingsetningar

Hjalti segir að sum verkefni séu flóknari en önnur og verði að vinnast með Veitum. Hann segir að klakinn sé að mestu horfinn en nú sé þetta spurning með niðurföllin og hvort þau séu stífluð eða hvort þau taki ekki við svona miklu vatnsmagni.

„Þetta er forgangsverkefni hjá okkur flestum en það eru önnur verkefni í gangi eins og götulokanir í tengslum við þingsetninguna sem er á morgun og Vetrarhátíðina sem verður sett á fimmtudaginn,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert