Rannsókn á veikindum sem komu upp eftir þorrablót sem voru haldin á föstudag og laugardag á Suðurlandi er á byrjunarstigi.
Þetta upplýsir Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri Matvælastofnunar.
Hrönn segir Matvælastofnun vera í samráðshópi með sóttvarnalækni og heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Hópurinn sé búinn að funda þar sem farið var yfir gögn málsins.
„Væntanlega verður þá tekið sýni úr sjúklingum til þess að byrja á því að finna út hvað er að valda þessari sýkingu. Það er svona fyrsta skrefið,“ segir Hrönn.
„Svo þegar við erum komin með betri mynd yfir það þá förum við og skoðum matvælin ef orsakavaldurinn er þess eðlis.“
Segir Hrönn að svo verði farið í rakningu og reynt að komast að uppruna sýkingarinnar.
„Það er náttúrulega mikilvægt að geta brugðist við og að það sé fundið út hvað olli þessu.“