Réðst á axarárásarmann tuttugu árum síðar

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness síðar í vikunni.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness síðar í vikunni. mbl.is/Karítas

Tveir bræður á fimmtugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í maí 2023. Réðust þeir með spörkum og höggum að öðrum manni, en manninum var haldið meðan högg og spörk dundu á honum, meðal annars höfuðspörk auk þess sem stappað var á höfði hans. Missti maðurinn meðvitund í árásinni.

Annar árásarmaðurinn og fórnarlambið núna hafa áður komið fyrir dóm vegna líkamsárásar. Það var fyrir um tveimur áratugum, en þá var hlutverkunum hins vegar öfugt snúið og fórnarlambið núna var þá sakfelldur fyrir tilraun til manndráps. Um er að ræða A. Hansen málið svokallaða, en þá réðst Börkur Birgisson á Karl Inga Þorleifsson með öxi inni á veitingastaðnum A. Hansen í Hafnarfirði.

Ítrekuð högg og spörk í andlit

Í ákæru málsins núna kemur fram að Karl Ingi hafi ásamt bróður sínum, Birni Þorleifi, ráðist að Berki fyrir utan veitingastaðinn Castello í Hafnarfirði í maí árið 2023.

Er árásinni þannig lýst að Björn hafi slegið Börk með krepptum hnefa í andlitið og síðan tekið Börk hálstaki á meðan Karl Ingi sló Börk sjö sinnum í höfuðið. Því næst er því lýst að Björn hafi haldið Berki á fjórum fótum á gólfinu á meðan Karl Ingi sparkaði í hann. Tók Björn Börk því næst hálstaki að nýju og Karl Ingi veitti Berki átta hnéspörk í búk, fimm olnbogaskot í höfuðið og í framhaldinu stappað á andliti Barkar áður en hann sparkaði í tvígang í höfuð hans.

Eftir árásina reisti Börkur sig við, en Björn tók hann aftur hálstaki, þrengdi að hálsinum og sleppti ekki fyrr en Börkur missti meðvitund. Þá sló Karl Ingi Börk á ný með krepptum hnefa í andlitið þar sem Börkur lá á gólfinu.

Börkur réðst á Karl Inga með öxi fyrir 20 árum

Farið er fram á refsingu í samræmi við 2. mgr. 218 gr. almennra hegningarlaga, en hún tekur til stórfelldrar líkamsárásar. Er þar átt við líkamsárás sem er sérstaklega hættuleg vegna þeirrar aðferðar sem beitt er. Getur brot við því varðað fangelsi í allt að 16 ár.

Sem fyrr segir er þetta ekki í fyrsta skiptið sem þeir Börkur og Karl Ingi mætast í dómsal, en árið 2005 var Börkur dæmdur í Hæstarétti í 7,5 ára fangelsi fyrir að ráðast að Karli Inga með öxi á veitingastaðnum A. Hansen. Var árásinni meðal annars lýst ítarlega í Fréttablaðinu eftir að málið kom upp.

Karl Ingi hefur áður hlotið dóma, en árið 2015 hlaut hann fimm mánaða dóm fyrir líkamsárásir. Árið síðar hlaut hann mánaðardóm fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa hótað fjölskyldu lögreglumanns.

Mikil gæsla var í héraðsdómi árið 2012 þegar réttað var …
Mikil gæsla var í héraðsdómi árið 2012 þegar réttað var yfir Berki. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Börkur hlotið aðra þunga dóma

Börkur hefur síðan hlotið nokkra dóma, meðal annars sjö ára og sex mánaða dóm á ný árið 2013 fyrir sérstaklega hættu­leg­ar lík­ams­árás­ir, ólög­mæta nauðung, frels­is­svipt­ingu og til­raun­ir til fjár­kúg­un­ar. Hlaut hann dóminn samhliða Annþóri Kristjáni Karlssyni.

Þeir Annþór og Börkur voru hins vegar sýknaðir í Hæstarétti árið 2017 af ákæru um að hafa banað Sigurði Hólm, samfanga sínum á Litla-Hrauni. Fengu þeir síðar greiddar bætur frá ríkinu vegna málsins.

Á þessum árum var mikið fjallað um mál sem tengdust Berki, en hann var meðal annars sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni og ærumeiðingar gagnvart opinberum starfsmanni, en hann kallaði dómara meðal annars „tussu“ og lygara og hrækti á hana. Mikil öryggisgæsla var einnig í kringum meðferð mála þegar Börkur átti í hlut, en í umræddu máli reyndi maður í annarlegu ástandi að nálgast Börk þegar hann gekk inn í dómsalinn. Voru fjórir lögreglumenn auk sérsveitarmanna með viðbúnað á staðnum þegar málið var tekið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert