Borgarstjóri og kjörnir fulltrúar í umhverfis- og skipulagsráði hafa ítrekað hunsað athugasemdir íbúa á Hlíðarenda varðandi áform um þéttingu byggðar á svæðinu.
Íbúar á svæðinu hafa síðustu mánuði reynt að ná í forsvarsmenn borgarinnar án árangurs vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á svæðinu.
Þetta segir Anna Jörgensdóttir, íbúi á Hlíðarenda. Hún segir íbúa á svæðinu vera að skoða stöðu sína vegna gjörbreyttra forsendna í aðal- og deiliskipulagi hverfisins frá árinu 2022. Anna sendi tölvupóst á Einar Þorsteinsson borgarstjóra og kjörna fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar í síðustu viku en fátt hefur verið um svör. Í umræddum tölvupósti gagnrýnir Anna þéttingaráform borgarinnar á svæðinu og óskar eftir auknu samráði borgaryfirvalda við íbúa á svæðinu.
Íbúar á svæðinu hafa verið gagnrýnir á nokkur svæði sem hafa tekið breytingum í deiliskipulagi borgarinnar frá því að þeir festu kaup á íbúðum sínum, flest í kringum árið 2020. Gagnrýnin beinist m.a. að svokölluðum I-reit sem er á horni Haukahlíðar, Smyrilshlíðar og Bæjarleiðar en eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá hyggst Bjarg íbúðafélag byggja íbúðarhúsnæði á svæðinu sem á að hýsa 83 íbúðir. Rétt er að taka fram að í deiliskipulagi frá árinu 2021 var gert ráð fyrir 70 íbúðum á svæðinu en fyrir það var svæðið skráð opið til bráðabirgða.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag