Stjórn Kennarasambands Íslands hefur borist ábending um hugsanlegt verkfallsbrot í leikskóla Snæfellsbæjar.
Magnús Þór Jónsson formaður sambandsins segir það munu skoða málið betur í dag.
Verkföll hófust í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum víða um landið í morgun.
Samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga funduðu alla helgina um innanhússtillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram. Samninganefndir komust þó ekki að niðurstöðu og skullu verkföll á í morgun.
Fulltrúar KÍ hafa í dag heimsótt nokkra leikskóla í verkfallsvörslu. Færð og veður hafa þó sett strik í reikninginn. Að undanskildu hugsanlega verkfallsbrotinu í Snæfellsbæ hefur verkfallið gengið þokkalega, að sögn formannsins.