„Þau horfa á þetta allt öðrum augum“

SFS birti skýrslu í morgun þar sem fram kom að …
SFS birti skýrslu í morgun þar sem fram kom að minni ábati væri af strandveiðum heldur en af veiðum innan aflamarkskerfisins. Samsett mynd/mbl.is/Árni/Karítas

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að ríkisstjórnin horfi öðruvísi á strandveiðar heldur en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem kynntu í dag skýrslu þar sem fram kemur að strandveiðar draga úr ábata af nýtingu sjáv­ar­út­vegsauðlind­ar­inn­ar.

Ríkisstjórnin er fyrst og fremst að horfa til þess að efla brothættar byggðir á landsbyggðinni.

Þetta segir Inga í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í dag þar sem fram kom að atvinnuvegaráðherra myndi á vorþinginu kynna frumvarp um strandveiðar sem á að tryggja strandveiðar í 48 daga.

Segir þetta gert til að efla brothættar byggðir

Samkvæmt skýrslu SFS þá myndi heildarafkoma í sjávarútvegi verða verri ef strandveiðar yrðu auknar á kostnað annarra og ábatasamari veiða.

„Á manna­máli þýðir það að sam­fé­lagið verður af verðmæt­um, tekj­ur rík­is­sjóðs verða lægri, fram­lag til hag­vaxt­ar og vel­ferðar verður minna og lífs­kjör verri en ella,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Spurð hvort að hún taki undir niðurstöður skýrslunnar segir Inga:

„Þau horfa á þetta allt öðrum augum heldur en við sem viljum tryggja 48 strandveiðidaga. Við erum að horfa á landsbyggðina. Við erum að reyna horfa á það að efla brothættar byggðir og blæðandi sjávarpláss sem við erum að reyna tryggja að einhverju leyti geti nýtt sér okkar fallegu sjávarauðlind. Þannig þau horfa á þetta með allt öðrum augum heldur en við.“

Telur strandveiðar mikilvægar

Inga segir að um byggðarstefnu sé að ræða og þetta sé gert til að koma til móts við landsbyggðina. Hún kveðst stolt af því að frumvarp um strandveiðar verði kynnt á vorþinginu.

Sumir hafa bent á það að þar sem þetta gildi bara yfir sumartímann þá hjálpi þetta ekkert endilega byggðarlögunum mestallt árið.

„Þetta er kannski bara viðbót. Og þetta er ákveðið líf við strendurnar okkar og okkur þykir þetta mjög mikilvægt,“ segir Inga.

Í skýrslunni er minnt á að veiðarnar gerist aðeins á sumrin, en svo vekur sérstaka athygli að stór hluti eigenda strandveiðibáta býr á höfuðborgarsvæðinu. Þeir greiða því ekki útsvar í þeim sveitarfélögum þar sem þeir landa aflanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert