Síðustu daga hefur mikið vatnsveður verið á stærstum hluta landsins. Hefur asahlákan valdið því að allur jarðvegur er mjög blautur og hækkað hefur í lækjum og ám.
Í Kópavogsdal bættist svo við að dæla þurfti upp gríðarlegu magni af vatni úr bílakjallara verslunar- og skrifstofuhúsnæðisins á Dalvegi 30. Var vatninu beint inn á Dalveg og rann þar niður götuna og niður í dalinn þar sem göngu- og hjólastígar liggja.
Í öllum þessum vatnsflaumi þurfti eitthvað að gefa eftir og í morgun mátti sjá að þar hafði runnið undan stígnum og staur fallið sem jafnan heldur uppi speglum til að gæta öryggis vegfarenda sem koma úr undirgöngum þarna við hliðina á.
Í skriðusárinu mátti jafnframt sjá varúðarborða vegna rafmagnsvírs sem þarna á að vera undir.