Biðla til forsjáraðila barna vegna illveðurs

Appelsíngul veðurviðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 14 á morgun.
Appelsíngul veðurviðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 14 á morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Almannavarnir höfuðborgarsvæðisins biðla til forsjáraðila barna að fylgja börnum sínum í skólann á morgun og fimmtudag vegna slæmrar veðurspár en appelsínugul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið á morgun og fimmtudag. 

Í tilkynningu sem send hefur verið á fjölmiðla er ítrekað að röskun geti orðið á frístundastarfi og skipulögðum æfingum í lok skóladags og að mikilvægt sé að forsjáraðilar séu tilbúnir að sækja börn í skóla og frístundastarf ef þess þarf. 

„Vænta má sterkari vinda í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins. Við mælum með því að börn séu í fylgd fullorðinna þar sem hálka getur leynst með rigningu og snjókomu.“

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir allt landið á morgun og taka fyrstu viðvaranir gildi kl 14 á morgun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði og síðar í öðrum landshlutum og gilda þær fram á nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert