Einar Þorsteinsson borgarstjóri tók undir með tillögu sjálfstæðismanna um að byggja þurfi atvinnustarfsemi við flugvöllinn í Vatnsmýri og að að engar líkur væru á því að flugvöllur væri á leið úr Vatnsmýri á meðan núgildandi aðalskipulag er í gildi til ársins 2040.
Eru það nokkur tíðindi að Einar, sem fulltrúi meirihlutans, taki undir með Sjálfstæðismönnum sem eru í minnihluta í borginni.
Útilokað væri að hægt verði að byggja þær 7.500 íbúðir sem skipulag gerir ráð fyrir á svæðinu sem flugvallarstæðið er nú.
„Mér finnst eðlilegt að þetta sé rætt hér og styð að þessari tillögu sé vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til meðferðar,“ segir Einar.
Nefnir hann að horfa þurfi til Úlfarsárdals og Leirtjarnar til frekari uppbyggingar. Þá þurfi einnig að taka ákvörðun um uppbyggingu í Geldingarnesi vegna fyrrirhugaðrar Sundabrautar, en gert er ráð fyrir gatnamótum frá Sundabraut inn á Geldinganes.
Tillaga sjálfstæðismanna snýr að því að nauðsynleg atvinnustarfsemi sé fyrir flugvöll í Vatnsmýri og að slík starfsemi verði færð inn í aðalskipulag.
Samkvæmt núverandi skipulagi er gert ráð fyrir starfsemi flugvallarins til 2032 en aðalskipulag nær til ársins 2040.
Hildur Björnsdóttir, flutningsmaður tillögunnar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, sagði að nýleg skýrsla um Hvassahraun sýndi að ekki væri ráðlagt að byggja nýjan flugvöll þar vegna áhættu þegar kemur að eldsumbrotum.
Bendir hún jafnframt á það að óraunhæft sé að 7.500 íbúðir rísi í Vatnsmýri á tímabilinu 2032-2040 líkt og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi.
„Þessar íbúðir munu ekki rísa á þessu svæði,“ segir Hildur og hvetur til raunsæis í málefni flugvallarins í ljósi þess að ekkert svæði sé til staðar undir nýtt flugvallarstæði.