Ríkisstjórnin bindur vonir við það að kynna frumvarp um auðlindagjald fyrir aðgang að ferðamannastöðum í haust. Mögulega sé hægt að koma í veg fyrir það að tekin verði upp komugjöld á ferðamenn.
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær.
„Við bindum miklar vonir við það að við verðum komin með útfærslu varðandi aðgangsstýringu að ferðamannastöðum sem við getum birt í þingmálum núna strax í haust,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.
Hún áréttir að um sé að ræða gjald sem yrði tekið við komu á vinsæla ferðamannastaði en ekki gjald sem allir ferðamenn þyrftu að greiða við komuna til landsins, svokallað komugjald.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SF), sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri fáránlegt að setja á komugjald á meðan unnið væri að útfærslu auðlindagjalds á ferðamenn fyrir aðgang að náttúruperlum Íslands.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er einmitt talað um að setja á fót komugjald áður en útfærsla yrði fundin á auðlindagjaldið en Kristrún er nú bjartsýn á að ekki þurfi að setja á komugjald.
Kristrún segir að stefnt sé að því að leggja frumvarpið fram í haust og að gjaldtaka fyrir komu á vinsæla ferðamannastaði komi til framkvæmda í byrjun næsta árs.
„Ef það gengur vel með þetta þá þurfum við ekki að fara komugjaldaleiðina,“ segir Kristrún.
Atvinnuvegaráðuneytið hefur þegar hafið samtal við hagsmunaaðila.
Kristrún segir að það verði fyrirsjáanleiki í ferlinu og því ætti ekkert að koma ferðaþjónustunni á óvart, en SF hefur gert kröfu um 12 mánaða fyrirvara áður en einhvers konar gjaldtaka hefst.
Heldur þú að þið getið orðið við beiðni þeirra um 12 mánaða fyrirvara?
„Það er það sem við erum að reyna gera núna. Okkur finnst það skipta rosalega miklu máli að það sé fyrirsjáanleiki í þessari vinnu, ætlum okkur ekki að koma aftan að neinum. Við höfum þess vegna ákveðið að bíða með að leggja þingmálið fram þar til í haust svo við getum átt gott samráð og samvinnu við fólk á vormánuðum,“ segir Kristrún.