Hiti fór í 11,7 stig í Stykkishólmi á laugardagskvöld, 1. febrúar. Er þetta hæsta hámark sem mælst hefur í febrúar í Stykkishólmi frá upphafi mælinga.
Hámarkshitamælingar eru til í Stykkishólmi í gagnagrunni Veðurstofu Íslands aftur til 1854, eða 172 ár. Næsthæsta hámarkið er frá því í febrúar 1942, 11,0 stig. Trausti Jónsson veðurfræðingur vekur athygli á hitametinu á bloggsíðu sinni, Hungurdiskum. Hann rekur einnig hitamet í Reykjavík.
„Í Reykjavík fór hið opinbera hámark í 9,7 stig. Það er reyndar dægurhámark – hæsti hiti sem mælst hefur 1. febrúar. Mánaðarmetið er hins vegar 10,2 stig, sem mældust þann 25. árið 2013, og tvisvar hafa mælst 10,1 stig, 8. febrúar 1936 og 16. febrúar 1942 (í sama veðri og gamla Stykkishólmsmetið).
Nú gerðist það hins vegar að hiti fór í 10,3 stig á Reykjavíkurflugvelli, en þar var hin opinbera stöð einmitt staðsett á árunum 1950 til 1973. Það telst samt ekki methiti í Reykjavík – miðað við núverandi metaafgreiðsluhætti. Eiga slík formsatriði að ráða úrslitum í svona keppni?“ skrifar veðurfræðingurinn.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag