Flugfélagið Play segist neyðast til aflýsa öllum áætlunarferðum sínum frá Keflavíkurflugvelli á morgun nema þremur, vegna þess óveðurs sem mun ganga yfir landið.
Flugfélagið kveðst í tilkynningu gera ráð fyrir að áætlunarferðir til Tenerife, Fuerteventura og Las Palmas verði farnar nærri hádegi á morgun en að öllum öðrum ferðum hafi verið aflýst sökum veðurs.
Í tilkynningu frá Icelandair er tekið fram að flug til Evrópu í fyrramálið sé á áætlun en að seinkun verði á flugi til Tenerife.
„Flugi frá Evrópu til Íslands eftir hádegið á morgun verður hins vegar seinkað um 24 tíma. Þá verður öllu flugi sem er á áætlun til Norður-Ameríku og Evrópu síðdegis á morgun aflýst. Innanlandsflug er enn sem komið er á áætlun en mögulegt er að komi til raskana á því,“ segir í tilkynningunni.
Þá gerir Icelandair áfram ráð fyrir röskunum á fimmtudaginn. Alls hafi 38 flugferðum til og frá landinu á miðvikudag og fimmtudag verið aflýst. Nýjustu upplýsingar megi svo finna á vef Icelandair.
„Farþegar sem eiga bókað í áætlunarferð sem hefur verið aflýst á morgun eru beðnir um að fylgjast vel með tölvupóstum frá flugfélaginu þar sem þeir geta sjálfir valið um næstu skref,“ segir í tilkynningu frá Play.
Ef farþegum berast ekki upplýsingar vegna breytinga á flugi eru þeir beðnir um að kanna hvort tengliðaupplýsingar eru rétt skráðar í bókun.
Þá geti einnig verið að tengiliðaupplýsingar séu ekki rétt skráðar ef farþegar keyptu ferðina í gegnum þriðja aðila. Þá sé best að heyra í þjónustuveri Play og fá það leiðrétt.
Flugfélagið kveðst gera ráð fyrir að flugáætlun á fimmtudag verði óbreytt, en að fylgst verði vel með gangi mála og farþegar verði látnir vita ef veðurspár horfi til verri vegar.
Icelandair tekur fram í tilkynningu að farþegar, sem áttu bókað með flugi sem nú hefur verið aflýst, verði endurbókaðir og fái senda nýja ferðaáætlun.
„Vegna umfangs röskunarinnar má búast við að endurbókunarferlið taki lengri tíma en venjulega. Farþegum er þökkuð þolinmæðin og bent á að fylgjast vel með þeim skilaboðum sem félagið sendir auk þess sem hægt er að fylgjast með á vef félagsins undir bókunin mín og í Icelandair appinu. Ekki er þörf á að hafa samband við Icelandair nema ný ferðaáætlun falli ekki að ferðalaginu.“