Margir kostnaðarliðir óháðir þyngd

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Frumvarp um kílómetragjald á ökutæki verður lagt fyrir Alþingi á ný fljótlega. Það er að stofninum til eins og frumvarp fyrri ríkisstjórnar en þá var miðað á að gjaldið yrði að lögum fyrir áramót.

Þetta sagði Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is í dag.

Tekið tillit til athugasemda

Segir Daði að tekið hafi verið tillit til sumra athugasemda sem gerðar höfðu verið við frumvarpið áður fyrr.

„Ég reikna með að það verði lagt fram mjög fljótlega. Það var auðvitað mjög langt komið í ráðuneytinu þegar ég tók við.“

Vegslit ekki eini kostnaðurinn

Á meðal þeirrar gagnrýni sem frumvarp um kílómetragjöld hefur fengið áður er að sama gjald verði tekið óháð þyngd bílanna.

Spurður hvort sú gagnrýni hafi verið á meðal athugasemda sem tekið var tillit til segir Daði að slit á vegum fari vissulega eftir þyngd bílanna sem þar keyra. Hins vegar sé það ekki eini kostnaðurinn.

„Við þurfum að hanna vegina, byggja þá, halda þeim opnum, sinna á þeim löggæslu og merkja þá. Allir þessir kostnaðarliðir eru óháðir þyngd bílsins sem keyrir á veginum.“

Segir hann því að sá hluti ferlisins er snýr að þyngd sé ekki svo stór kostnaðarliður fyrir minni bifreiðar.

„Þetta er svona spurning um hversu flókið kerfið eigi að vera miðað við hagsmunina um það að það taki tillit til kostnaðarliða sem eru kannski lítið breytilegir.“

Þurfi kannski að horfa til beggja sjónarmiða

Segir Daði hins vegar að fyrir þyngri bíla fari vegslit að skipta meira máli sem kostnaðarliður.

„Þannig að það togast á þarna sjónarmið einfaldleika og gagnsæis annars vegar og 100% fullkominnar sanngirni hins vegar og þegar það hleypur á aurnum frekar en krónunni þá þurfum við kannski að horfa til beggja sjónarmiða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert