Gróðurhús fór á hliðina, tjón varð á bílum, myndarlegt grenitré fór í tvennt og rúður brotnuðu í strætóskýli og tveimur skólum, þegar óvenju öflugrar vindhviðu varð vart í gærmorgun.
Hviðan, sem fann sér leið í gegnum Neskaupstað með þessum afleiðingum, mældist 54 metrar á sekúndu á veðurstöð við Nesskóla klukkan 9.16.
Austurfrétt greindi fyrst frá.
Brynjar Rúnarsson, húsvörður Nesskóla, var í matsal grunnskólans þegar opnanlegt fag fauk út og skelltist svo aftur með þeim afleiðingum að rúða sprakk.
Í samtali við mbl.is segir hann tvo nemendur hafa staðið við gluggann þegar fagið fauk upp og náðu þeir að forða sér áður en rúðan small til baka.
Einnig varð tjón á bílum á bílastæði grunnskólans í ofsaveðrinu þegar grjót fauk á ökutækin.
Þá brotnaði gler í anddyri Verkmenntaskóla Austurlands.
Jóhann Tryggvason húsvörður skólans segir tjónið smávægilegt. Glerið hafi þó verið „hnausþykkt“ og ætti það að standa af sér sterkar hviður.
Hann segir skemmdirnar í bænum allar vera á tiltölulega afmörkuðu svæði.
Jóhann og Brynjar segja einnig rúðu í strætóskýli hafa brotnað, myndarlegt grenitré hafa farið í tvennt og gróðurhús, sem stóð nálægt leikskólanum, hafa fokið á hliðina.
Í umfjöllun Austurfréttar kemur einnig fram að rúða hafi brotnað í dráttarvél á Kirkjubóli í Norðfjarðarsveit og sömuleiðis rúður í bíl sem stóð við Kjörbúðina.
Hlynur Sveinsson, veðuráhugamaður í Neskaupstað, sagðist í samtali við miðilinn eiga von á því að meiri skemmdir ættu eftir að koma í ljós.
Á fjórum veðurstöðvum í firðinum í gær mældi hann hviður sem fóru yfir 50 m/s.
Í samtali við mbl.is segir Daði Benediktsson, formaður björgunarsveitarinnar Gerpis, ekkert útkall hafa borist björgunarsveitinni á svæðinu.